Beitningaskúrinn opnaður til sýningar
Beitningaskúrinn er einnar hæðar portbyggt timburhús með risi, með dyrum og fjórum gluggum á suðurgafli, tvöfaldri hurð og timburklæðningu á vesturhlið, einum glugga á norðurgafli og gluggalaus á austurhlið. Hann er tæplega 50 fermetra að stærð.
Jóhann Loftsson og Jón Jakobsson byggðu Beitningaskúrinn árið 1925 en um það leyti var blómaskeið vélbátaútgerðar á Eyrarbakka. Síðar eignuðust Jóhann E. Bjarnason og Kristinn Gunnarsson húsið og Bjarni sonur Jóhanns það eftir þá.
Upprunalega var skúrinn sambyggður öðru jafnstóru húsi og mynduðu þau saman tveggja bursta samstæðu. Þar var upphaflega annar eigandi með annan bát. Jóhann og Kristinn keyptu burstina sem þeir nýttu sem fiskgeymslu og var hún rifin fyrir skömmu fyrir 1990. Húsið stendur ofan við svonefnda Heklubryggju þar sem áður var löng röð aðgerða- og beitningaskúra sem nú er orðin nokkuð skörðótt. Einn bátur var fyrir hvern beitningaskúr.
Á fyrstu áratugum Beitningaskúrsins var húsið notað sem geymsla og saltfiskhús og voru aðgerðarstíur framan við hann. Síðar var húsið einnig notað sem beitningaskúr. Það var einkum á tímabilinu febrúar og mars þegar veitt var á línu.
Þegar farið var á net var ræst eldsnemma og farið með fjórar tólf neta trossur í sjó. Þá notuð net úr hampi og þótti „rauða höndin“ fisknust af þeim. Kaffi var lagað um borð og menn borðuðu af nesti sínu þegar siglt var milli trossa. Þegar í land var komið og búið að landa var gert að aflanum. Það hafði hver bátur sína aðgerðastíu undir berum himni og stórt trékar þar við sem sjó eða vatni var dælt í og fiskurinn þveginn upp úr. Síðan var honum kastað upp á bílpall og þaðan á vigt og lagður inn í hraðfrystihúsið á Eyrarbakka.
Á línuvertíð unnu að jafnaði fjórir til fimm sjómenn við að beita. Þeir komu milli 3 og 4 um morguninn til að beita og höfðu hver fyrir sig beitningabala og beitningastól. Síld var notuð sem bjóð og kom hún frosin á pönnu sem látin var bráðna í skúrnum. Beitt var í fremri sal en í þeim innri voru bjóðin geymd. Loftið var geymsla fyrir net og netakúlur. Þeir sem unnu við að beita fengu jafnháan hlut og þeir sem fóru á sjó. Beitt var fram að hádegi og átti hver og einn að fylla einn bala af bjóðum eða setja á 420 króka. Það voru fjórir til fimm sem beittu á meðan fimm fóru á sjóinn.
Beitningaskúrinn var gefin Sjóminjasafninu af Bjarna Jóhannssyni árið 1991 og þá fyrirhugað að hafa skúrinn til sýnis í takt við fyrra hlutverk og sögu vélbátaútgerðar á Eyrarbakka. Sjóminjasafnið lét gera hann upp árin 1992 til 1994 af Jóni Karli Ragnarssyni húsasmíðameistara með styrk frá Húsafriðunarsjóði. Skipt var um bárujárn og grind löguð. Við viðgerðina kom í ljós sérstæð klæðning innan við bárujárnið á vesturhliðinni. Bátur hefur verið tekinn og flattur út og myndar klæðningu hússins. Að höfðu samráði við Húsafriðunarnefnd var ákveðið að láta klæðninguna halda sér, gera við hana, en klæða hana ekki að nýju með bárujárni.
Beitningaskúrinn er á lista Harðar Ágústssonar sérfræðings í íslenskri byggingarsögu yfir friðuð timburhús. Þar sem Beitningaskúrinn er í eigu Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka má líta svo á að varðveisla hans hafi verið tryggð.
Sýningin í Beitningaskúrnum var sett upp haustið 2013 með styrkjum frá Menningarráði Suðurlands og Safnaráði. Sýningarráðgjafar voru Finnur Arnar Arnarson og Þórarinn Blöndal.
Heimildir:
Ársskýrslur Sjóminjasafnsins 1992 og 1993.
Sjóminjasafnið á Eyrarbakka, kynningarbæklingur 2005.
Dagbók Garðars Hannessonar apríl 2013.
Viðtöl við Jóhann Jóhannsson og Gunnar Olsen.
Velkomin
