Sýningar
Litla-Hraun – sögusýning
Í tilefni 90 ára afmælis Fangelsisins á Litla-Hrauni efna fangelsið og Byggðasafn Árnesinga til sögusýningar í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. Sýningin opnar á afmælisdeginum föstudaginn 8. mars kl. 17. Á sýningunni er sögð saga fangelsisins. Þróun á starfsemi Litla Hrauns sem stofnunnar er þar í forgrunni en auk þess er litið inní veröld fangavarða, fanga og samfélagsins í kring. Sýningin er byggð á ýmsum munum frá fangelsinu, ljósmyndum sem til eru og gagnorðum sýningartextum.
Lóurnar, jólalestur og spýtujólatré í Húsinu á Eyrarbakka
Sönghópurinn Lóurnar syngur nokkur falleg jólalög laugardaginn 15. desember kl. 15 í Húsinu á Eyrarbakka og sunnudaginn 16. desember verður flutt sögubrot frá jólum fyrri tíðar.
Safnið er með sérstaka jólaopnun í desember og þessa komandi helgi er opið bæði laugardag og sunnudag frá 13.00 til 17.00 og enginn aðgangseyrir. Söngkonurnar sem skipa Sönghópinn Lóurnar eru: Halla Dröfn Jónsdóttir, Elín Gunnlaugsdóttir, Halla Marínósdóttir, Kolbrún Hulda Tryggvadóttir, Halldóra Steindórsdóttir og Elísabet Hermundardóttir og munu þær sannarlega fylla Húsið af fögrum jólatónum á laugardag. Á sunnudag 16. desember kl. 15 mun Lýður Pálsson safnstjóri svo flytja nokkrar vel valdar frásagnir sem gefa innsýn inní jólin áður fyrr.
Jólastund með Heru í Húsinu
Við bjóðum unga safngesti sérlega velkomna á jólaopnun sunnudaginn 9. desember sem hefst kl. 13.00 á húslestri. Leikkonan Hera Fjord mun lesa nokkrar jólasögur fyrir börn í stássstofu Hússins þar sem ríkir kyrrð og ró. Í borðstofu er jólasýning safnsins þar sem gömul jólatré eru í aðalhlutverki og handgerðar jólasveinabrúður prýða eldhúsið. Í litla alþýðuhúsinu Kirkjubæ er opin vinnusmiðja þar sem gestir mega föndra músastiga. Jólakaffi á boðstólum og frítt inn allan daginn og opið kl. 13.00 – 17.00. Verið innilega velkomin.
Skáldastund, jólasýning og músastigar í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka
Á safninu byrjar jólagleðin ávallt með opnun jólasýningar og skáldastund í stássstofu Hússins. Sunnudaginn 2. desember býður safnið gesti velkomna. Á jólasýningunni skarta gömlu jólatrén sínu fegursta, músastigasmiðja verður í Kirkjubæ og í stássstofu má hlýða á rithöfunda lesa úr nýjum verkum sínum. Þetta árið koma fram: Bjarni M. Bjarnason með skáldsöguna Læknishúsið, Gerður Kristný með ljóðabókinni Sálumessa, Þórunn Jarla Valdimarsdóttir sem ritaði sögu Skúla fógeta, Lilja Sigurðardóttir með glæpasöguna Svik og Guðmundur Brynjólfsson með glæpasöguna Eitraða barnið. Þarna fá gestir brot af ólíkum skáldskap. Eyrarbakki er sögusviðið í bókum Guðmundar og Bjarna. Lilja hefur getið sér gott orð sem spennusagnarhöfundur og Þórunn þekkt fyrir að tvinna listlega saman sagnfræði og skáldskap. Gerður Kristný er svo eitt okkar fremsta ljóðskáld. Það verður enginn bókaunnandi svikinn af skáldastund í Húsinu. Opin vinnusmiðja verður í litla alþýðuhúsinu Kirkjubæ og er ætlunin að fylla litla kotið af músastiga. Aðventukaffi er á boðstólum, allir velkomnir og frír aðgangur. Jólasýningin er opin sem og safnið allt frá kl. 13-17 en upplestur rithöfunda hefst kl. 16.00
Ljúf aðventa á safninu
Fjölbreytt jóladagskrá og séropnanir verða á safninu á aðventu. Jólasýning safnsins opnar sunnudaginn 2. desember þar sem gömul jólatré skarta sínu fegursta. Sama dag verður skáldastund í stássstofu Hússins samkvæmt áralangri hefð og opin vinnusmiðja í músastigagerð verður í Kirkjubæ. Annan sunnudag í aðventu 9. desember heimsækir leikkonan Hera Fjord Húsið og les jólasögur fyrir börn og vinnusmiðja verður áfram opin í Kirkjubæ. Síðustu helgi fyrir jól 15. – 16. desember verður opið báða daganna. Á laugardag syngja Lóurnar jólalög af alkunnri snilld og á sunnudag verða flutt sögubrot frá jólum fyrri tíðar. Þessa þrjá sunnudaga og einn laugardag verður safnið opið frá kl. 13 – 17 og aðventukaffi á boðstólum. Frítt verður á alla viðburði og safnið sjálft.
Leiksýningin Fjallkonan
Leiksýningin Fjallkonan eftir Heru Fjord verður flutt í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 6. október kl. 15 og 20. Sýningin er liður í Menningarmánuðinum október í Árborg og er aðgangur ókeypis.
Kristín Dahlstedt var veitingakona í 50 ár. Á Laugaveginum og víðsvegar í Reykjavík rak hún veitingahús og gistiheimili frá árinu 1905, oftast undir nafninu Fjallkonan.
Hún var frumkvöðull og nútímakona sem gerði hlutina eftir sínu eigin höfði, bæði í atvinnu og einkalífinu.
Lokahóf – Marþræðir og Stakkaskipti
Síðasta degi sumaropnunar á Byggðasafni Árnesinga verður fagnað með laufléttri dagskrá í Húsinu á sunnudaginn 30. september. Þar munu listamenn bjóða gesti velkomna, vinnusmiðja verður fyrir krakka, sögufróðleikur fyrir gesti og ljúfir tónar fylla loftið. Sérsýningar sumarsins í Húsinu eru tvær; Marþræðir í borðstofunni og Stakkaskipti í fjárhúsinu og þeim lýkur í lok mánaðar. Sýningin Marþræðir er fullveldisárið með augum listamannsins Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur þar sem hún beinir sjónum sínum að fjörunni og fjörunytjum. Ásta notar hráefni eins og sjávargróður ásamt ullinni til að vísa í bjargræði fólks þegar illa áraði. Marþræðir er samspil textílverka hennar við vel valda gripi úr safneign og veitir frumlega sýn á söguna.
Gio Ju dansar við safnið
Gio Ju frá Suður Kóreu er nútímadansari og gjörningalistamaður sem sérhæfir sig í butohdansi. Hún mun fremja dansgjörning við Húsið, laugardaginn 25. ágúst kl. 16 á sama tíma og listasýningin Stakkaskipti opnar.
Hún heimsækir nú Ísland í fyrsta sinn en hún hefur tekið þátt í fjöldann allan af listaviðburðum víða um heim. Frá árinu 2011 hefur hún búið í Indlandi og setti á fót dansskóla þar sem hreyfilist og tjáning í dansi er kennd sem lífsstíll. Gio Ju hefur dansað með danshópum, stórum og smáum, en einnig unnið með listamönnum sem koma úr ólíkum listgreinum og dansar þá oft á tíðum ein. Á Eyrarbakka vinnur hún með Ástu Guðmundsdóttur listakonu og hönnuði sumarsýningar safnsins. Dansverk Gio Ju eru ávallt einstök og tengd inní aðstæður hverju sinni. Það verður því afar áhugavert að sjá hvernig hún tvinnar sína list saman við andrúm byggðasafnsins.
Stakkaskipti og Marþræðir – Listasýning og dansgjörningur
Listasýningin Stakkaskipti opnar með viðhöfn kl. 16.00 laugardaginn 25. ágúst í gamla fjárhúsinu norðan við Húsið. Danslistakonan Gio Ju frá Suður Kóreu mun fremja gjörning við opnun og listamenn taka vel á móti gestum. Fjórar ólíkar listakonur sýna saman á Stakkaskiptum. Þetta eru þær, Halla Ásgeirsdóttir keramiker, Halla Bogadóttir gullsmiður, Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður og Margrét Birgisdóttir myndlistarmaður. Þær eiga það sameiginlegt að sækja innblástur úr náttúru eða vinna verk sín úr náttúrulegum efnum líkt og rekaviði eða steinum. Allar hafa þær sýnt margoft en sýna nú saman í fyrsta sinn. Hugmyndin að sýningunni fæddist fyrir nokkrum árum og röð tilviljana leiddi þær á slóðir Eyrarbakka. Þær heilluðust af þeirri hugmynd að umbreyta grófu umhverfi eins og gamla fjárhúsinu í sýningarsal og þannig er nafnið Stakkaskipti tilkomið því sannarlega mun fjárhúsið umbreytast.
Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka 2018
Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka 23. júní 2018
Kl. 08:30 | Fánar dregnir að húni |
Kl. 09:00–11:00 | Morgunverður í Hallskoti
Skógræktarfélag Eyrarbakka býður til morgunverðar og samverustundar í skóg-ræktinni, sem félagið annast um í Hallskoti. Ekið um Sólvangs- og Flóagaflsveg. |
Kl. 09:00–22:00 | Verslunin Bakkinn
Verslunin verður opin til kl. 22:00. Frír ís fyrir börnin um miðjan daginn. |
Kl. 10:00–16:00 | Drög að Fangelsisminjasafni Íslands á Stað
Á Eyrarbakka er elsta starfandi fangelsi landsins og undanfarin ár hefur ýmsum munum og skjölum sem tengjast sögu fangelsa á Íslandi verið safnað. Saga fangelsa er merk saga sem ekki má gleymast. Sýningin einnig opin á sama tíma sunnudaginn 24. júní. |
Kl. 11:00–13:00 | Eldsmíðafélag Suðurlands
Félagar í Eldsmíðafélaginu bjóða gestum að kíkja við í húsi félagsins við Túngötu og skoða afl og steðja. Valinkunnir eldsmiðir verða á staðnum og segja frá. |
Kl. 11:00–17:00 | Laugabúð
Búðin opin og þar verður ýmislegt rifjað upp frá 100 ára sögu hennar. Hinn sívinsæli bókamarkaður verður í kjallaranum. Óvænt tilboð í tilefni dagsins. |
Kl. 11:00–18:00 | Söfnin á Eyrarbakka
Opið í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu, Sjóminjasafninu og Kirkjubæ. Í borðstofu Hússins og í Hjallinum er sýning Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur Marþræðir. Ratleikur er í boði allan daginn. Í hjallinum norðan við Húsið er seinni hluti sýningarinnar Marþræðir og þar býður listamaðurinn Ásta uppá seiði og söl kl. 14. Ókeypis aðgangur. |
Kl. 11:00 | Leikhópurinn Lotta við Sjóminjasafnið
Leikhópurinn Lotta skemmtir ungum sem öldnum með söngvasyrpu. |
Kl. 11:30–13:00 | Hestar og hressing á Garðstúninu
Teymt verður undir börnum og þau fá hressingu. |
Kl. 12:00–14:00 | Bogfimi á Garðstúninu
Að hætti Hróa hattar fá þátttakendur boga og örvar og berjast við fógetann í Skírisskógi í stuttum leikjum í líkingu við skotbolta. Aldurstakmark 10 til 98 ára. |
Kl. 12:00-21:00 | Rauða húsið
Á veitingastaðnum Rauða húsinu er tveggja rétta Jónsmessutilboð með humarsúpu eða nautacarpaccio í forrétt og hægeldað lambaprime með gulrótum, sellerírót, kartöflum og rauðvínssósu á 6.150 kr. Tveir fyrir einn eftirréttir. Kjallarinn er opinn frá kl. 12. Eldhúsið er opið til kl. 21. Pizza með þremur áleggs-tegundum á 2.000 kr. Leikirnir á HM á breiðtjaldi og gleðistund kl. 16–18. |
Kl. 13:30 | Dansgjörningur á lóðinni við Húsið
Japanski hreyfilistamaðurinn og butoh-meistarinn Mushimaru Fujieda er þekktur víða um heim og í dansi sínum leggur hann áherslu á slökun huga og líkama. |
Kl. 14:00–16:00 | Heimboð á þrjá staði
Íris og Karl á Óseyri bjóða gestum að líta inn á heimili sitt við Flóagaflsveg. Vigdís í Bræðraborg, Eyrargötu 40, býr í húsi frá 1939 og hlakkar til að fá gesti. Sigurlaug í Norðurkoti heldur upp á 120 ára afmæli hússins á hátíðinni. |
Kl. 14:00–16:00 | Sólvangur – Miðstöð íslenska hestsins
Opið hús á Sólvangi. Þar verður boðið uppá kaffi, kleinur og djús og hesthúsið opið fyrir þá sem hafa áhuga á íslenska hestinum. |
kl. 17:00–18:00 | Eyrarbakki 1918
Stutt söguganga um hluta Eyrarbakka, þar sem horft verður aftur í tímann um 100 ár. Magnús Karel Hannesson leiðir gönguna sem hefst við samkomuhúsið Stað. |
Kl. 20:00–21:21 | Samsöngur í Húsinu
Heimir Guðmundsson leikur undir söng á elsta píanó á Suðurlandi. Sungið verður úr skólaljóðunum og hver syngur með sínu nefi. |
Kl. 22:00 | Jónsmessubrenna
Að venju verður Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakka. Að þessu sinni ávarpar Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur samkomugesti. Bakkabandið heldur svo uppi fjörinu |
Kl. 22:00–04:00 | Kjallarinn á Rauða
Grétar á Sólvangi spilar fyrir okkur fram á kvöldið. Aldurstakmark 18 ára. |
Björgunarsveitin Björg býður ungum og öldnum að veiða frítt í Ölfusárósi fyrir landi Eyrarbakka dagana 22. til 24. júní 2018.
Jónsmessuhátíðin er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg, Björgunarsveitinni Björg, Ungmennafélagi Eyrarbakka, Slysavarnadeildinni Björg á Eyrarbakka, Rauða húsinu og Versluninni Bakkanum.