Uncategorized

Byggðasafn Árnesinga kaupir Búðarstíg 22 á Eyrarbakka

Búðarstígur 22 árið 1986 þegar Alpan var nýhafið starfsemi sína í byggingunni. Myndina tók Sigurður Jónsson og er hún varðveitt á Héraðsskjalasafni Árnesinga.

Framundan eru breytingar til betri vegar  á húsnæðismálum Byggðasafns Árnesinga. Mjög brýnt hefur verið að stækka eða bæta við varðveisluaðstöðu safnsins þar sem núverandi aðstaða er sprungin. Stórir gripir hafa um árabil verið geymdir í Mundakotsgeymslu á Eyrarbakka sem er algjörlega óviðunnandi geymsluaðstaða og ennfremur bíður stór safngripaeign frá sveitarfélaginu Ölfusi þess að komast í viðunnandi húsnæði. Í apríl keypti Byggðasafn Árnesinga Búðarstíg 22 á Eyrarbakka, hið svokallaða Alpan-hús, undir starfsemina og var núverandi þjónustuhús að Hafnarbrú 3 tekið upp í. Kaupin áttu sér stað í kjölfar aukafundar Héraðsnefndar Árnesinga, eiganda safnsins,  sem snemma árs samþykkti að fara þessa leið til að leysa úr húsnæðisvandanum. Starfsemin færist úr 560 fermetrum í Hafnarbrúnni og Mundakotsskemmu í 1700 fermetra í Búðarstíg 22. Verða geymslur safnsins því allar á einum stað. Í Búðarstíg 22 verða einnig skrifstofur safnsins, verulega bætt þjónustuaðstaða fyrir almenning ásamt rými sem gefur möguleika til fyrirlestrahalds o.fl. Ætlunin að  leigja Þjóðminjasafni Íslands ríflega 400 fermetra undir ýmsa muni sína. Flutningur safnsins úr Hafnarbrú 3  og Mundakotsskemmu í Búðarstíg 22 mun fara fram í nokkrum áföngum og er stefnt að því að flutningum verði lokið árið 2022.

read more

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka

Á morgun, laugardaginn 22. júní, verður hin árlega Jónsmessuhátíð haldin á Eyrarbakka. Fjölbreytt dagskrá er í boði. Safnið er opið frá 11-18 eins og vant er og enginn aðgangseyrir þennan dag. Þjóðdansafélag Reykjavíkur dansar í garðinum við Húsið kl. 2 og andlitsmálun fyrir börn verður í fjárhúsinu á Garðtúni bak við Húsið kl. 1-3. Um kvöldið verður samsöngur í Húsinu þar sem Heimir Guðmundsson leikur undir söng á elsta píanó á Suðurlandi. Sungið verður úr skólaljóðunum og hver syngur með sínu nefi. Söngurinn hefst kl. 8. Í borðstofu Hússins er ljósmyndasýningin Rófubóndinn þar sem Vigdís Sigurðardóttir sýnir eitt ár í lífi rófubóndans Guðmundar Sæmundssonar á Sandi. Tilvalið er að nota tækifæri og skoða þá skemmtilegu sýningu. Gamli slökkviliðsbíllinn verður til sýnist úti á túni. Verið velkomin.

read more

Rófubóndinn

Laugardaginn 15. júní kl 17 opnar ljósmyndasýningin Rófubóndinn í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. Vigdís Sigurðardóttir sýnir eitt ár í lífi rófubóndans Guðmundar Sæmundssonar á Sandi sem hefur ræktað gulrófur á Eyrarbakka í yfir 50 ár. Sýningin gefur fróðlega og litríka sýn á ræktun þessarar einstöku jurtar sem fylgt hefur þjóðinni  í um 200 ár. Léttar veitingar og allir velkomnir. Safnasjóður styrkti sýninguna.

Leiðsögn á safnadegi

Alþjóðlegi safnadagurinn er laugardaginn 18. maí. Söfn eru í stöðugri endurnýjun í viðleitni sinni til að verða gagnvirkari, áhorfendamiðaðri, samfélagslegri, sveigjanlegri, aðlögunarhæfari og hreyfanlegri stofnanir. Þau hafa breyst í menningarmiðstöðvar sem skapa umhverfi þar sem sköpunargleði er sameinuð þekkingu og þar sem gestir geta einnig skapað með öðrum, deilt og átt samskipti. Þetta er fókusinn á alþjóðlega safnadeginum í ár.

Í tilefni alþjóðlega safnadagsins verður gestum og gangandi boðið upp á leiðsögn um Litla-Hraun sögusýningu í Húsinu á Eyrarbakka. Sýningin er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga og Fangelsisins Litla-Hraun og lýkur 9. júní næstkomandi. Opið er alla daga kl. 11-18. ðið up

read more

Sumaropnun

Nú er maí runninn upp. Þá hefst sumaropnun hjá söfnunum á Eyrarbakka. Opið er kl. 11-18 alla daga í sumar til 30. september. Húsið, Assistentahúsið, Eggjaskúrinn, Kirkjubær og Sjóminjasafnið eru til sýnis. Fróðleg söfn um atvinnu, mannlíf og menningu héraðsins. Upplifðu, sjáðu og snertu fortíðina! Allir velkomnir!

Í borðstofu Hússins verður sýningin Litla-Hraun opin til 9. júní en 15. júní opnar sýningin “Rófubóndinn”. Í september verður sýning á vegum Héraðsskjalasafns Árnesinga í borðstofunni.

read more

Nýtt lén

Nýtt lén www.byggdasafn.is er komið fyrir heimasíðu Byggðasafns Árnesinga. Síðan hefur legið niðri um skeið og missti safnið gamla lénið vegna þess að áskriftartímabil þess var lokið og ekki tókst að skrá það inn sökum þess að upprunalegur hýsingaraðili sem stofnaði til lénsins var hættur starfsemi. En nýja lénið er lýsandi fyrir að starfsemin er byggðasafn. Netfang safnsins er líka nýtt: info@byggdasafn.is. Netfang safnstjóra er lydurp@byggdasafn.is og netfang safnvarðar linda@byggdasafn.is.

read more

Spænska veikin lagði Gest á Hæli að velli

Vinnukladdi Eiríks Gíslasonar í Gunnarshólma.

Vinnukladdi Eiríks Gíslasonar í Gunnarshólma.

Í fórum  Byggðasafns Árnesinga er að finna vinnukladda Eiríks Gíslasonar trésmiðs sem bjó á Eyrarbakka. Þar kemur glögglega fram um verkefni þau sem hann tók að sér hvort sem þau voru stór eða smá.  Þær voru óvenjumargar líkkisturnar sem Eiríkur smíðaði árið 1918 þegar spænska veikin gekk yfir. Frá október fram í desember smíðaði Eiríkur átta kistur. Verkstæði Eiríks var í kjallara Gunnarshólma, reisulegs timburhúss þar sem hann bjó og enn stendur við aðalgötuna  á Eyrarbakka.

Þann 24. nóvember 1918 tók Eiríkur ásamt öðrum hagleiksmið á Eyrarbakka Sigurði Gíslasyni að sér að smíða kistu utan um Gest Einarsson á Hæli sem lést deginum áður 23. nóvember. Unnið var að smíði kistunnar næstu daga og var hún fullgerð 29. nóvember. Voru þeir Eiríkur og Sigurður búnir að leggja 77 tíma í verkið og tóku þeir krónu á tímann, efnið kostaði  93 krónur og alls kostaði kistan með efni og vinnu 170 krónur sem borgað var skilvíslega.

Gestur Einarsson á Hæli

Gestur Einarsson á Hæli

Héraðsbrestur varð þegar Gestur Einarsson bóndi og athafnamaður á Hæli í Gnúpverjahreppi lést úr spænsku veikinni fyrir öld síðan.  Hann var einungis 38 ára gamall, fæddur 2. júní 1880 á Hæli og bjó þar alla tíð. Hóf búskap þar 1906 og bjó þar til æviloka. Hann beitti sér ungur fyrir stofnun Kaupfélags Árnesinga og Rangæinga 1902 og veitti því forstöðu 1903-1904. Gestur var viðriðinn stofnun íslenskra fossafélaga og gaf út blaðið Suðurland eldra um tíma. Í Suðurland skrifaði hann um hafnargerð í Þorlákshöfn, bankamál  og járnbraut austan fjalls.  Hann var ein aðaldriffjöðrin í framboði óháðra bænda 1916 sem Framsóknarflokkurinn var síðar myndaður úr.  Gestur var oddviti Gnúpverjahrepps 1913-1916 og í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands 1916-1918. Hann var kvæntur Margréti Gísladóttur frá Ásum í Gnúpverjahreppi og áttu þau börnin Gísla safnvörð, Einar bónda á Hæli, Ragnheiði sem dó 2ja ára, Steinþór alþingismann og bónda á Hæli, Þorgeir lækni, Hjalta ráðunaut og Ragnheiði húsfreyju á Ásólfsstöðum.  Margrét stóð fyrir búinu eftir lát Gests þar til næsta kynslóð tók við. Fjölmennur ættbogi er eftir hjónin Margréti og Gest á Hæli.

Spænska veikin gekk fyrir öld síðan. Þetta var inflúensufaraldur sem gekk um heimsbyggðina og féllu margir úr veikinni og er mannskæðasta farsótt sem sögur fara af. Veikinni fylgdi jafnan lungnabólga og létust menn oft innan tveggja daga eftir að sóttarinnar varð vart. Veikinni fylgdu blæðingar, blóð streymdi úr nösum og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrás. Spænska veikin barst til Íslands 19. október 1918 með tveimur farþegaskipum. Fjölmargir tóku veikina og breiddist hún út um landið. Þann 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi veikst og fimm dögum síðar að tveir þriðju íbúa hafi verið rúmfastir.

Úr spænsku veikinni dóu  31 á Eyrarbakka og nágrenni, 16 annarsstaðar í Árnessýslu, 500  á landinu öllu og  um 50 milljónir á heimsvísu.

Eins og má geta fjölluðu fjölmiðlar á þessum tíma um spænsku veikina. Í Morgunblaðinu, 2. desember 1918 22. tbl. bls. 2, er fjallað um veikina á Suðurlandi og hljóðar svo:

Spænska veikin fyrir austan

Influenzan og  læknarnir. Vegna ýmsra ummæla í blöðum hér, einkum „Tímans” (frá 27. nóv.) og „Vísis”, um sérstaka meðferð á inflúenzunni og afleiðingum hennar, eignaða Þórði lækni Sveinssyni, hefir formaður Læknafélags Reykjavíkur leitað álits lækna bæjarins, þeirra sem átt hafa við þessa sótt (landlæknis, próf. Guðm. Magnússonar, Guðm. Hannessonar, Sæm. Bjarnhéðinssonar, héraðslæknis Jóns H. Sigurðssonar, læknanna Magga Magnús, Matth. Einarssonar, Þórðar Thoroddsen, Ólafs Þorsteinssonar, Dav. Sch. Thorsteinsson), og er það sammála álit þeirra, að sjúkdóm þennan beri að fara með eins og venja hefir verið um slíkar kvefsóttir, af því að enn þá þekkist engin betri lækningaraðferð. Auk þess telja þeir, að sumar af þeim reglum, sem „Tíminn” birtir, geti verið beinlínis skaðlegar, sérstaklega sveltan. Ofanritað mun stjórn læknafélagsins hafa sent landlækni og stjórnarráðinu og blöðum bæjarins til birtingar.

 Inflúenzan eystra. Sigurður Sigurðsson ráðunautur dvelur nú austur í sveitum til þess að rannsaka hvar helzt er þörf fyrir hjálp vegna farsóttarinnar. Hefir hann farið allvíða um síðustu dagana og mun nú hafa fengið upplýsingar úr nær öllum hreppum Árnes- og Rangárvallasýslna. Frá honum barst oss eftirfarandi símskeyti í fyrramorgun, dagsett að Ölvesárbrú  29. nóv., kl. 6 síðd.:

Veikin er mjög útbreidd um Flóann og virðist vera einna skæðust í Hraungerðishreppi. Þar hafa dáið alls 5 menn. Á Stokkseyri er veikin heldur að réna, en mikil veikindi eru enn á Eyrarbakka. Liggja þar 20 menn í lungnabólgu, sumir allþjáðir. Veikin er mögnuð á einstaka bæjum í hreppum og Biskupstungum, eru menn gera alt til þess að reyna að tefja fyrir veikinni. Grímsnesið er undirlagt. Í Árnessýslu hafa alls dáið 20 menn. Veikin er vægari í Rangárvallasýslu, er á 11 bæjum í Fljótshlíð, 10 bæjum austur Eyjafjöllum, en vestur Fjöllin eru laus við sóttina enn. Margir eru veikir í Þykkvabænum og í austurhluta Landeyja. Í Rangárvallasýslu hafa dáið alls 14 manns. Fólki er mikið að batna þar sem veikin kom fyrst.

Til viðbótar við þessar fréttir má geta þess, að Sigurður ráðunautur kom til bæjarins í gær, og gat hann þess stuttlega við oss, að nú væru dánir 26 menn í Árnessýslu. Veikin fremur væg í Grímsnesi, og enginn dáið þar. Annars töluvert skæð á einstökum heimilum í uppsveitum sýslunnar. Meðal þeirra, sem dáið hafa í Árnessýslu, auk Gests á Hæli, má nefna Finnboga Ólafsson bónda í Auðsholti í Ölfusi, Jóhannes bónda í Miðfelli í Þingvallasveit, Guðmund Guðnason á Gýgjarhóli, 24 ára gamall, Helgu Einarsdóttur, konu Þorsteins í Langholti, Margréti Jóhannesdóttur, konu Friðriks í Hafliðakoti o. fl. Einnig gat Sigurður þess að þeir séra Ólafur í Hraungerði og Guðmundur læknir Guðfinnsson, séu báðir veikir og liggi rúmfastir.

 

Öld er liðin frá því að spænska veikin geisaði um heimsbyggðina.  Það eina sem Byggðasafn Árnesinga varðveitir um þessar hamfarir eru nokkrar síður um líkkistusmíðar smiðsins á Eyrarbakka utan um fórnalömb spænsku veikinnar.

 

Lýður Pálsson

safnstjóri

 

 

Heimildir:

https://is.wikipedia.org/wiki/Spænska_veikin

Morgunblaðið 2. desember 1918 22. tbl. bls. 2. Sótt á timarit.is

Æfiágrip Gests Einarssonar. Úr handriti Páls Lýðssonar um ýmsa merkismenn á Suðurlandi.

Páll Lýðsson:  Saga Búnaðarsambands Suðurlands, Selfossi 2008, bls. 23.

BÁ 2005-68, vinnukladdi Eiríks Gíslasonar trésmiðs á Eyrarbakka.

Árborg – sjáðu þetta!

Í tilefni 20 ára afmælis Sveitarfélagsins Árborgar og menningarhátíðarinnar  Vor í Árborg kynnum við fjóra kjörgripi í eigu Byggðasafns Árnesinga. Einn gripur frá hverju sveitarfélagi sem stóð að stofnun Árborgar.bein

Þessir gripir eru valdir af handahófi. Ekki er gert upp á milli safnmuna Byggðasafns Árnesinga. Þeir bera allir vitni um líf, störf og menningu héraðsins. Vissulega hefur safnið ekki alla gripi sína til sýnis en varðveisluaðstaða safnsins er mjög góð og markmið starfsmanna að varðveita þá til næstu kynslóða. Allir safnmunir Byggðasafns Árnesinga og Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka eru skráðir í miðlægan gagnagrunn íslenskra safna Sarp.  Með því að fara á síðuna www.sarpur.is er hægt að fræðast um aðföng íslenskra safna, þar á meðal safnmuna Byggðasafns Árnesinga.

Sýningin Árborg – sjáðu þetta! í borðstofu Hússins á Eyrarbakka verður opin á sumardaginn fyrsta 19. apríl  kl. 13-15, föstudaginn 20. apríl til sunnudagsins 22. apríl kl. 14-17. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Heitt á könnunni.

Meðfylgjandi mynd er af hvalbeini Helgu sem bjó í Grímsfjósum á Stokkseyri. Hvalbeinið er einn af sýningargripunum ásamt viðeigandi texta um sögu þess.

Teiknum Andann

ANEQSAAQ Tura Ya Moya containerproject Workshop Greenland

Anersaaq – Andi á Eyrarbakka

Þú í myndinni og Mitt umhverfi – vinnusmiðjur barnanna

föstudaginn 26.8.  kl.16:00 -18:00

Tura Ya Moya workshop

 

Þú í myndinni – málum litlar gler- skyggnumyndir í ólíkum litum. Vörpum síðan myndinni á vegg og ljósmyndum listamanninn inn í eigin verki.

 

Mitt umhverfi   Teiknum andann á Eyrarbakka með ólíkum aðferðum. Notum nokkuð frjálsar leið við að gera myndverk sem sýna á einhver hátt umhverfi okkar. Hvað sérðu á Eyrarbakka? Fólk, fugla, sjó, hús, pöddur eða plöntur.

 

***

 

Alþjóða listahópurinn Tura Ya Moya sýnir okkur á næstu dögum  myndverk frá íbúum úr litlum þorpum á Norðurslóðum. Nú gefum við þeim myndir frá okkur að taka með í ferðalagið.

 

Mæting í Húsinu eða Kirkjubæ  kl. 16.00 – 18.00 – ókeypis þátttaka – Ung börn þurfa að vera  í fylgd foreldra.

 

Nánar um Anersaaq – Anda hér www.anersaaq.com

Söfnin á Eyrarbakka í sumarblóma

IMG_4393Hvað er sniðugra en að gera sér ferð á Eyrarbakka og líta á söfnin sem þar er að finna? Húsið, Kirkjubær og Sjóminjasafnið á Eyrarbakka taka vel á móti þér og þar er opið kl 11-18 alla daga í sumar.

Í Húsinu er sögð saga þessa merka húss sem byggt var 1765 og er í hópi elstu húsa á Islandi. Það var kaupmannssetur frá upphafi til 1927 þegar Eyrarbakki var verslunarstaður Sunnlendinga. Hægt er að skoða þessa merku byggingu hátt og lágt og er sagan við hvert fótspor. Í borðstofunni er sumarsýningin Dulúð í Selvogi.  Í viðbyggingunni Assistentahúsinu eru valdir þættir úr sögu héraðsins kynntir gestum og má þar m.a. sjá nýja sýningu um Vesturheimsferðir. Fyrir norðan Assistentahúsið er Eggjaskúrinn með áhugaverðri náttúrusýningu.

read more