Ferðalangar í heimsókn

mar 23, 2021

Það var líf og fjör hjá okkur á Byggðasafni Árnesinga fyrir skemmstu þegar galvaskir hópar frá leikskólanum Álfheimum brugðu undir sig betri fætinum og tóku strætó frá Selfossi og hingað á Eyrarbakka til okkar. Heimurinn hafði sannarlega stækkað, mátti lesa úr svip þessara yndislegu barna sem skoðuðu alla króka og kima safnsins áður en þau héldu til fundar við leikskólastjórann sinn sem hafði komið með hádegismatinn þeirra á Eyrarbakka. Eftir mat teiknuðu þau fyrir okkur myndir og síðan héldu þau könnunarferð sinni áfram, gölluðu sig upp og héldu syngjandi glöð í fjöruferð. Við þökkum kærlega fyrir okkur og vonum að þau taki fljótlega aftur strætó til okkar!