Framtíð handan hafs – námskeið í Húsinu

feb 1, 2013

imagesJónas Þór, sagnfræðingur hjá Bændaferðum, ætlar að fjalla um fyrstu vesturferðir af Suðurlandi, íslenskt landnám í Wisconsin og fyrirhugaða ferð á þær slóðir í maí næstkomandi á stuttu námskeiði í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 9. febrúar milli 10:00 – 16:00. Öllum er heimil þátttaka og kostar hún 5.000 kr. á mann.

Vesturfaratímabilið hófst árið 1870 þegar fjórir ungir menn fóru frá Eyrarbakka til Wisconsin í Bandaríkjunum. Vinur þeirra, Wilhelm nokkur Wickmann, hafði unnið hjá Guðmundi Thorgrimsen á Eyrarbakka nokkur ár en flutti til Milwaukee 1865. Hann skrifaði vinum sínum á Eyrarbakka, lýsti því sem fyrir augu bar og hvatti menn til vesturfarar. Á næstu árum fóru allmargir frá Eyrarbakka til Wisconsin og settust flestir að á Washingtoneyju, lítilli eyju í Michiganvatni. Þar myndaðist lítil nýlenda, fyrsta íslenska nýlendan í Vesturheimi. Lang-flestir landnámsmanna þar voru Sunnlendingar. Tengsl við Ísland héldust alla tíð og hafa aukist ef eitthvað er. Afkomendur vesturfaranna hafa lagt mikið af mörkum til að þau haldist sterk m.a. með myndarlegri aðstoð við endurreisn Eggjaskúrsins á Eyrarbakka.

Lítið samfélag myndaðist í eynni og tóku Íslendingar virkan þátt í uppbyggingu þess. Þeir tileinkuðu sér ný og framandi vinnubrögð t.d. skógarhögg og við fiskveiðar. Það er merkilegt að á þessum fyrstu árum Vesturfaratímabilsins fóru menn vestur án þess að hugleiða nokkuð myndun alíslenskrar nýlendu. Hvert var viðhorf þessara fyrstu vesturfara af Íslandi til samfélagsins sem var í mótun í Ameríku? Hvers vegna fóru svo fáir þaðan til Nýja Íslands, alíslensku nýlendunnar í Kanada? Tókst þeim að skapa sér og sýnum betra lífsviðurværi í Vesturheimi en kostur var á hér heima?

Nánari upplýsingar um námskeiðið og ferðina gefur Jónas Þór síma 570 2793 og 859 7011. Ennfremur á jonas@baendaferdir.is

Meðfylgjandi ljósmynd sýnir ferju Árna J. Richters sem hann gaf nafnið Eyrarbakki og siglir til Washington-eyjar á Michigan-vatni.