Lokað á tímum Covid-veirunnar

Að tilmælum sóttvarnarlæknis hefur sýningum safnsins í Húsinu, Sjóminjasafninu, Kirkjubæ og Rjómabúinu verið lokað þar til annað verður ákveðið. Húsið verður því lokað um páskana og sýning sú sem fyrirhugað var að setja upp verður síðar. Stefnt er að því að almenn opnun verði 1. júní næstkomandi og jafnframt opnar ný sýning í borðstofu um list Agnesar Lunn.

Meðfylgjandi er tilkynning frá Safnaráði um lokun safna.

Á meðan á þessu stendur er unnið að faglegu innra starfi við safnið og ber þar hæst skráningu aðfanga síðustu ára.

read more

Vetrarfréttir af Byggðasafni Árnesinga

Yfir háveturinn er safnið opið eftir samkomulagi og tekið á móti hópum stórum og smáum, erlendum sem innlendum. Opið verður um páskana og svo hefst sumaropnun 1. maí. Kastljósinu er yfir vetrartímann beint að innri málum safnanna og er þar af nógu að taka um þessar mundir.

Stjórn Byggðasafns Árnesinga fundaði þann 14. janúar sl. og var fundarefnið margvíslegt. Þar var meðal annars fjallað um ráðningu nýs safnvarðar en Linda Ásdísardóttir réð sig til Þjóðminjasafns Íslands í haust. Í fundargerð segir: „Staða safnvarðar. Starfið var auglýst í fjölmiðlum í byrjun nóvember með umsóknarfresti til 1. desember. Það bárust 25 umsóknir. Sex vel hæfum umsækjendum var boðið viðtal við safnstjóra. Stjórn safnsins var á meðan á ferlinu stóð haldið upplýstri um stöðu mála. Ákveðið var að bjóða Ragnhildi Elísabetu Sigfúsdóttur íslenskufræðingi og nema í safnafræði starfið og mun hún koma til starfa 2. mars næstkomandi. Stjórn Byggðasafns Árnesinga staðfestir ráðninguna og býður Ragnhildi velkomna til starfa.“

read more

Jólakveðja

Byggðasafn Árnesinga sendir öllum gestum, velunnurum og landsmönnum öllum bestu jóla- og nýárskveðjur. Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.

Lóur syngja

Sönghópurinn Lóur syngur nokkur falleg jólalög sunnudaginn 15. desember kl. 15  í Húsinu á Eyrarbakka og munu þær svo sannarlega fylla Húsið af fögrum jólatónum.

Safnið er með sérstaka jólaopnun í desember og þessa komandi helgi er opið bæði laugardag og sunnudag frá 14 til 17 og enginn aðgangseyrir. Kaffi og konfekt í boði. Gestum gefst jafnframt gott tækifæri til að skoða jólasýningu safnsins þar sem gömul jólatré eru í forgrunni. Elsta varðveitta jólatré landsins er spýtujólatré frá Hruna sem var smíðað árið 1873. Nú er nýsmíðuð eftirlíking af Hrunatrénu til sýnis og var þetta árið fallega skreytt af krökkum í 10. bekk Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þetta eru síðustu dagar í séropnun safnsins fyrir þessi jól en alltaf má panta séropnun fyrir hópa stóra sem smáa og skólabörn eru sérlega velkomin. Uppbyggingasjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.

read more

Jólalög spiluð á lírukassaJólasýning Byggðasafns Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka verður opin helgina 7.-8. desember kl. 14-17. Kaffi og konfekt í boði og ókeypis aðgangur. Sunnudaginn 8. desember kl. 15 kemur Björgvin Tómasson orgelsmiður með lírukassa sinn og spila á hann jólalög. Mega allir taka undir. Jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands.

Jólasýning og skáldastund

Jólin koma brátt og byrjar jólagleðin ávallt með opnun jólasýningar og skáldastund í stássstofu Hússins. Sunnudaginn 1. desember býður safnið gesti velkomna. Á jólasýningunni skarta gömlu jólatrén sínu fegursta í borðstofu og í stássstofu má hlýða á rithöfunda lesa úr nýjum verkum sínum. Þetta árið koma fram: Sjón les úr skáldsögu sinni Korngult hár, grá augu, Einar Már Guðmundsson les úr ljóðabókinni Til þeirra sem málið varðar, Margrét Sveinbjörnsdóttir kynnir og segir frá 100 ára afmælisriti Kvenfélags Grímsneshrepps, Auður Hildur Hákonardóttir kynnir bók sína um biskupsfrúrnar í Skálholti, Harpa Rún Kristjánsdóttir kynnir og les úr verðlaunaljóðabók sinni Eddu og Guðmundur Brynjólfsson les úr skáldsögunni Þögla barnið. Þarna fá gestir brot af ólíkum ritsmíðum eftir fjölbreyttan hóp. Sjón og Einar Már eru meðal okkar fremstu skálda og jafnvígir á skáldsögur og ljóð, Margrét frá Heiðarbæ fjallar um hið aldargamla kvenfélag í Grímsnesi í veglegu afmælisriti en hún hefur víðar komið við á ritvellinum á þessu ári, Hildur spyr hvað sé svo merkilegt við að vera biskupsfrú, Harpa Rún er bóndi undir Heklurótum en hún hlaut fyrir skömmu verðlaun kennd við ljóðskáldið Tómas Guðmundsson og Guðmundur Brynjólfsson heldur áfram með trílógíu sína um Eyjólf Jónsson sýslumann. Það verður enginn bókaunnandi svikinn af skáldastund í Húsinu. Aðventukaffi er á boðstólum, allir velkomnir og frír aðgangur. Jólasýningin er opin sem og safnið allt frá kl. 14-17 en upplestur rithöfunda hefst kl. 16. Næstu tvær helgar verður opið á sama tíma, Björgvin orgelsmiður kemur 8. des. kl. 15 og spilar jólalög á lírukassann sinn og 15. des. kl. 15 kemur sönghópurinn Lóur og syngur jólalög.

read more

Jólin koma í Húsið

Eftirlíking af elsta jólatré Íslands er skreytt fyrir jólasýninguna. Elsta jólatréð verður líka á jólasýningunni en það var smíðað fyrir prestmaddömuna í Hruna árið 1873.

Fjölbreytt jóladagskrá og séropnanir verða á safninu á aðventu. Jólasýning safnsins opnar sunnudaginn 1. desember þar sem gömul jólatré skarta sínu fegursta. Sama dag verður skáldastund í stássstofu Hússins samkvæmt áralangri hefð.  Jólasýningin verður opin 1., 7., 8., 14. og 15. des. kl. 14-17 og fyrir hópa á öðrum tímum eftir samkomulagi. Annan sunnudag í aðventu 8. Des. kl. 15 heimsækir orgelsmiðurinn Björgvin Tómasson Húsið og kemur með lírukassann sinn. Leikin verða jólalög. Sunnudaginn 15. des. kl. 15 kemur sönghópurinn Lóur og syngur inn jólahátíðina með alþekktum jólalögum. Aðventukaffi er á boðstólum og frítt á alla viðburði og safnið sjálft.

read more

Safnarúntur á Grænlandi – fyrirlestur

Laufléttur fyrirlestur verður í Húsinu á Eyrarbakka föstudagskvöldið 11. október kl. 20 um ferðir Lindu Ásdísardóttur, safnvarðar á Byggðasafni Árnesinga, um Suður- og Vestur-Grænland þar sem hún rúntaði á milli safna og drap niður fæti á nokkrum minjastöðum. Linda er nýkomin úr skoðunarferð sem teygði sig frá Ilulissat til Nuuk þar sem safnmenningin var skoðuð sérstaklega. Einnig verður sagt frá áhugaverðum stöðum að heimsækja á Suður- Grænlandi. Ef þú ert forvitin um Grænland og vilt ferðast þangað án þess að þramma á fjall þá máttu ekki missa af þessu.

read more

Bækur og bakkelsi – sýningarlok

Húsið á Eyrarbakka er opið  um helgina 5. og 6. október kl. 14 -17. Aðgangur ókeypis. Sýningin Bækur og bakkelsi er í borðstofu og verður brátt tekin niður þannig að nú eru síðustu forvöð að sjá þessa athyglisverðu sýningu.

Á sýningunni Bækur og bakkelsi eru handskrifaðar uppskriftarbækur í aðalhlutverki. Uppskriftirnar í bókunum segja ótal margt um tíðaranda, tísku, aðgang að hráefni, nýtni og hagsýni. Einnig er saga baksturs rakin auk þess sem húsmæðrafræðsla á Suðurlandi er skoðuð. Uppskriftirnar á sýningunni voru valdar með það að leiðarljósi að kynna gesti fyrir gömlum aðferðum gegn matarsóun enda málefnið tíðrætt í fjölmiðlum þessa dagana. Sýningin er unnin af Héraðsskjalasafni Árnesinga sem varðveitir einnig uppskriftabækurnar. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands

read more

1 2 3 16