Nýtt lén

Nýtt lén www.byggdasafn.is er komið fyrir heimasíðu Byggðasafns Árnesinga. Síðan hefur legið niðri um skeið og missti safnið gamla lénið vegna þess að áskriftartímabil þess var lokið og ekki tókst að skrá það inn sökum þess að upprunalegur hýsingaraðili sem stofnaði til lénsins var hættur starfsemi. En nýja lénið er lýsandi fyrir að starfsemin er byggðasafn. Netfang safnsins er líka nýtt: info@byggdasafn.is. Netfang safnstjóra er lydurp@byggdasafn.is og netfang safnvarðar linda@byggdasafn.is.

read more

Litla-Hraun – sögusýning

Í SEM AS 081tilefni 90 ára afmælis Fangelsisins á Litla-Hrauni efna fangelsið og Byggðasafn Árnesinga til sögusýningar í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. Sýningin opnar á afmælisdeginum föstudaginn 8. mars kl. 17. Á sýningunni er sögð saga fangelsisins. Þróun á starfsemi Litla Hrauns sem stofnunnar er þar í forgrunni en auk þess er litið inní veröld fangavarða, fanga og samfélagsins í kring. Sýningin er byggð á ýmsum munum frá fangelsinu, ljósmyndum sem til eru og gagnorðum sýningartextum.

Vinnuhælið á Litla-Hrauni tók til starfa 8. mars 1929 í byggingu í útjaðri Eyrarbakka sem reist var sem sjúkrahús en hóf svo ekki starfsemi  sökum fjárskorts. Á þessum tíma voru refsifangamálefni í miklum ólestri og sáu yfirvöld þarna tækifæri til að leysa úr þeim vanda með því að fá sjúkrahúsbyggingunni  það hlutverk að hýsa refsifanga.  Starfsemin hét Vinnuhælið á Litla-Hrauni og voru jarðirnar Stóra- og Litla-Hraun lagðar undir starfsemina og rekinn búskapur á vinnuhælinu til 1970. Síðar var starfseminni breytt úr vinnuhæli í afplánunarfangelsi og starfsemin fékk heitið Fangelsið Litla-Hraun.  Stofnunin er stærsta fangelsi landsins og eru þar allt að 87 fangar og 57 stöðugildi. Tíu byggingar eru við fangelsið.

Sýningin verður opin allar helgar í mars og apríl kl. 14-17. Auk þess verður séropnun í kringum páska og opið á sama tíma alla virka daga frá 15. apríl. Sumaropnun safnsins hefst 1. maí og þá eru söfnin opin uppá gátt alla daga kl. 11-18. Ávallt heitt á könnunni og verið velkominn. Sýningin er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands.

Byggðasafn Árnesinga og Fangelsið Litla-Hraun

Gagnagrunnurinn sarpur.is

Sarpur forsíðumyndÞú lesandi góður getur með heimilistölvu þinni skoðað hvað finna má af íslenskum menningararfi í íslenskum söfnum og stofnunum með því að fara inn á vefinn www.sarpur.is.  Leita má að munum, ljósmyndum, listaverkum, fornleifum, húsum, örnefnalýsingum og þjóðháttum með því að fara inn á Sarp. Um 50 söfn eru aðilar að Sarpi sem þau reka saman í sérstöku rekstrarfélagi sem stofnað var 2002. Fyrir almenning fór vefurinn í loftið í maí 2013 en í áratug á undan höfðu aðildarsöfnin unnið í innri-vef Sarps að innfærslu gagna sem fjölgar dag frá degi. Rúmlega 1.200.000 færslur má finna í Sarpi í dag. Síðustu árin hafa söfnin keppst við að ljósmynda muni og skanna ljósmyndir til að mynd fylgi hverri færslu. Því verki er langt frá því lokið.

read more

Kyndilmessustund í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 2. febrúar

Húsið veturByggðasafn Árnesinga heldur  upp á Kyndilmessu í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 2. febrúar kl. 3. Dagskráin verður nokkuð óhefðbundin. Kristján Guðmundsson sálfræðingur hugleiðir efni skáldsögunnar Eitraða barnið eftir Guðmund S. Brynjólfsson. Af hverju fremur manneskja glæp? Er einhver leið að útskýra ofbeldi? Eitraða barnið gerist á Eyrarbakka um aldamótin 1900 og ætlar Kristján að veita gestum sálfræðilega innsýn í efni bókarinnar fyrir gesti.  Að loknu erindi Kristjáns syngur Hafsteinn Þórólfsson söngvari  við undirleik Ásgeirs Ásgeirssonar gítarleikara nokkur lög.

Í upphafi dagskrár verður í stuttu máli sagt frá Kyndilmessunni.  Kyndilmessa, hreinsunarhátíð Maríu meyjar, er 40 dögum eftir fæðingu Krists sem ber upp á 2. febrúar ár hvert. Þá er mikil ljósadýrð við kaþólska guðþjónustu og dagurinn því kenndur við kerti eða kyndla og íslenska nafnið  Kyndilmessa þaðan upprunnið segir í Sögu Daganna eftir Árna Björnsson.

Stundin hefst kl. 3, boðið verður upp á kaffi að lokinni dagskrá  og aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.

Jólakveðja

Jólakveðja Byggðasafns Árnesinga 2018

Byggðasafn Árnesinga í Húsinu á

Eyrarbakka sendir öllum landsmönnum

bestu jóla- og nýárskveðjur. Við þökkum

öllum okkar gestum nær og fjær fyrir

samveruna og öðrum fyrir samstarfið á

líðandi ári.

Gleðileg jól.

Lóurnar, jólalestur og spýtujólatré í Húsinu á Eyrarbakka

Lóurnar 2017Sönghópurinn Lóurnar syngur nokkur falleg jólalög laugardaginn 15. desember kl. 15  í Húsinu á Eyrarbakka og sunnudaginn 16. desember verður flutt sögubrot frá jólum fyrri tíðar.

Safnið er með sérstaka jólaopnun í desember og þessa komandi helgi er opið bæði laugardag og sunnudag frá 13.00 til 17.00 og enginn aðgangseyrir. Söngkonurnar sem skipa Sönghópinn Lóurnar eru: Halla Dröfn Jónsdóttir, Elín Gunnlaugsdóttir, Halla Marínósdóttir, Kolbrún Hulda Tryggvadóttir, Halldóra Steindórsdóttir og Elísabet Hermundardóttir og munu þær sannarlega fylla Húsið af fögrum jólatónum á laugardag. Á sunnudag 16. desember kl. 15 mun Lýður Pálsson safnstjóri svo flytja nokkrar vel valdar frásagnir sem gefa innsýn inní jólin áður fyrr.

Gestum gefst jafnframt gott tækifæri til að skoða jólasýningu safnsins þar sem gömul jólatré eru í forgrunni. Elsta varðveitta jólatré landsins er spýtujólatré frá Hruna sem var smíðað árið 1873. Nú er nýsmíðuð eftirlíking af Hrunatrénu til sýnis og var þetta árið fallega skreytt af krökkum í 10. bekk Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Litla alþýðuhúsið Kirkjubær er einnig opið.  Aðventukaffi er á boðstólum fyrir gesti og gangandi og allir velkomnir. Þetta eru síðustu dagar í séropnun safnsins fyrir þessi jól en alltaf má panta séropnun fyrir hópa stóra sem smáa og skólabörn eru sérlega velkomin. Uppbyggingasjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.

Jólastund með Heru í Húsinu

jólasögur - facebooksíðaVið bjóðum unga safngesti sérlega velkomna á jólaopnun sunnudaginn 9. desember sem hefst kl. 13.00 á húslestri. Leikkonan Hera Fjord mun lesa nokkrar jólasögur fyrir börn í stássstofu Hússins þar sem ríkir kyrrð og ró. Í borðstofu er jólasýning safnsins þar sem gömul jólatré eru í aðalhlutverki og handgerðar jólasveinabrúður prýða eldhúsið. Í litla alþýðuhúsinu Kirkjubæ er opin vinnusmiðja  þar sem gestir mega föndra músastiga. Jólakaffi á boðstólum og frítt inn allan daginn og opið kl. 13.00 – 17.00.  Verið innilega velkomin.

Skáldastund, jólasýning og músastigar í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka

Bjarni Bjarnason - Skáld - Rithöfundur

Gerður Kristný

Guðmundur Brynjólfsson

LiljaSigurdardottir

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á safninu byrjar jólagleðin ávallt með opnun jólasýningar og skáldastund í stássstofu Hússins. Sunnudaginn 2. desember býður safnið gesti velkomna. Á jólasýningunni skarta gömlu jólatrén sínu fegursta, músastigasmiðja verður í Kirkjubæ og í stássstofu  má hlýða á rithöfunda lesa úr nýjum verkum sínum. Þetta árið koma fram: Bjarni M. Bjarnason með skáldsöguna Læknishúsið, Gerður Kristný með ljóðabókinni Sálumessa, Þórunn Jarla Valdimarsdóttir sem ritaði sögu Skúla fógeta, Lilja Sigurðardóttir með glæpasöguna Svik og  Guðmundur Brynjólfsson með glæpasöguna Eitraða barnið. Þarna fá gestir brot af ólíkum skáldskap. Eyrarbakki er sögusviðið í bókum Guðmundar og Bjarna. Lilja hefur getið sér gott orð sem spennusagnarhöfundur og Þórunn þekkt fyrir að tvinna listlega saman sagnfræði og skáldskap. Gerður Kristný er svo eitt okkar fremsta ljóðskáld. Það verður enginn bókaunnandi svikinn af skáldastund í Húsinu. Opin vinnusmiðja verður í litla alþýðuhúsinu Kirkjubæ og er ætlunin að fylla litla kotið af músastiga. Aðventukaffi er á boðstólum, allir velkomnir og frír aðgangur. Jólasýningin er opin sem og safnið allt frá kl. 13-17 en upplestur rithöfunda hefst kl. 16.00

Byggðasafnið verður með fjölbreytta jóladagskrá og séropnunum á aðventu þar sem verður opið þrjá sunnudaga fyrir jól og einn laugardag. Uppbyggingasjóður Suðurlands styrkir dagskrána.  Nánari dagskrá má sjá á vefsíðu safnsins www.husid.com  og á Facebook „Húsið á Eyrarbakka – Byggðasafn Árnesinga“.  Ókeypis aðgangur. Verið velkomin.

Spænska veikin lagði Gest á Hæli að velli

Vinnukladdi Eiríks Gíslasonar í Gunnarshólma.

Vinnukladdi Eiríks Gíslasonar í Gunnarshólma.

Í fórum  Byggðasafns Árnesinga er að finna vinnukladda Eiríks Gíslasonar trésmiðs sem bjó á Eyrarbakka. Þar kemur glögglega fram um verkefni þau sem hann tók að sér hvort sem þau voru stór eða smá.  Þær voru óvenjumargar líkkisturnar sem Eiríkur smíðaði árið 1918 þegar spænska veikin gekk yfir. Frá október fram í desember smíðaði Eiríkur átta kistur. Verkstæði Eiríks var í kjallara Gunnarshólma, reisulegs timburhúss þar sem hann bjó og enn stendur við aðalgötuna  á Eyrarbakka.

Þann 24. nóvember 1918 tók Eiríkur ásamt öðrum hagleiksmið á Eyrarbakka Sigurði Gíslasyni að sér að smíða kistu utan um Gest Einarsson á Hæli sem lést deginum áður 23. nóvember. Unnið var að smíði kistunnar næstu daga og var hún fullgerð 29. nóvember. Voru þeir Eiríkur og Sigurður búnir að leggja 77 tíma í verkið og tóku þeir krónu á tímann, efnið kostaði  93 krónur og alls kostaði kistan með efni og vinnu 170 krónur sem borgað var skilvíslega.

Gestur Einarsson á Hæli

Gestur Einarsson á Hæli

Héraðsbrestur varð þegar Gestur Einarsson bóndi og athafnamaður á Hæli í Gnúpverjahreppi lést úr spænsku veikinni fyrir öld síðan.  Hann var einungis 38 ára gamall, fæddur 2. júní 1880 á Hæli og bjó þar alla tíð. Hóf búskap þar 1906 og bjó þar til æviloka. Hann beitti sér ungur fyrir stofnun Kaupfélags Árnesinga og Rangæinga 1902 og veitti því forstöðu 1903-1904. Gestur var viðriðinn stofnun íslenskra fossafélaga og gaf út blaðið Suðurland eldra um tíma. Í Suðurland skrifaði hann um hafnargerð í Þorlákshöfn, bankamál  og járnbraut austan fjalls.  Hann var ein aðaldriffjöðrin í framboði óháðra bænda 1916 sem Framsóknarflokkurinn var síðar myndaður úr.  Gestur var oddviti Gnúpverjahrepps 1913-1916 og í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands 1916-1918. Hann var kvæntur Margréti Gísladóttur frá Ásum í Gnúpverjahreppi og áttu þau börnin Gísla safnvörð, Einar bónda á Hæli, Ragnheiði sem dó 2ja ára, Steinþór alþingismann og bónda á Hæli, Þorgeir lækni, Hjalta ráðunaut og Ragnheiði húsfreyju á Ásólfsstöðum.  Margrét stóð fyrir búinu eftir lát Gests þar til næsta kynslóð tók við. Fjölmennur ættbogi er eftir hjónin Margréti og Gest á Hæli.

Spænska veikin gekk fyrir öld síðan. Þetta var inflúensufaraldur sem gekk um heimsbyggðina og féllu margir úr veikinni og er mannskæðasta farsótt sem sögur fara af. Veikinni fylgdi jafnan lungnabólga og létust menn oft innan tveggja daga eftir að sóttarinnar varð vart. Veikinni fylgdu blæðingar, blóð streymdi úr nösum og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrás. Spænska veikin barst til Íslands 19. október 1918 með tveimur farþegaskipum. Fjölmargir tóku veikina og breiddist hún út um landið. Þann 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi veikst og fimm dögum síðar að tveir þriðju íbúa hafi verið rúmfastir.

Úr spænsku veikinni dóu  31 á Eyrarbakka og nágrenni, 16 annarsstaðar í Árnessýslu, 500  á landinu öllu og  um 50 milljónir á heimsvísu.

Eins og má geta fjölluðu fjölmiðlar á þessum tíma um spænsku veikina. Í Morgunblaðinu, 2. desember 1918 22. tbl. bls. 2, er fjallað um veikina á Suðurlandi og hljóðar svo:

Spænska veikin fyrir austan

Influenzan og  læknarnir. Vegna ýmsra ummæla í blöðum hér, einkum „Tímans” (frá 27. nóv.) og „Vísis”, um sérstaka meðferð á inflúenzunni og afleiðingum hennar, eignaða Þórði lækni Sveinssyni, hefir formaður Læknafélags Reykjavíkur leitað álits lækna bæjarins, þeirra sem átt hafa við þessa sótt (landlæknis, próf. Guðm. Magnússonar, Guðm. Hannessonar, Sæm. Bjarnhéðinssonar, héraðslæknis Jóns H. Sigurðssonar, læknanna Magga Magnús, Matth. Einarssonar, Þórðar Thoroddsen, Ólafs Þorsteinssonar, Dav. Sch. Thorsteinsson), og er það sammála álit þeirra, að sjúkdóm þennan beri að fara með eins og venja hefir verið um slíkar kvefsóttir, af því að enn þá þekkist engin betri lækningaraðferð. Auk þess telja þeir, að sumar af þeim reglum, sem „Tíminn” birtir, geti verið beinlínis skaðlegar, sérstaklega sveltan. Ofanritað mun stjórn læknafélagsins hafa sent landlækni og stjórnarráðinu og blöðum bæjarins til birtingar.

 Inflúenzan eystra. Sigurður Sigurðsson ráðunautur dvelur nú austur í sveitum til þess að rannsaka hvar helzt er þörf fyrir hjálp vegna farsóttarinnar. Hefir hann farið allvíða um síðustu dagana og mun nú hafa fengið upplýsingar úr nær öllum hreppum Árnes- og Rangárvallasýslna. Frá honum barst oss eftirfarandi símskeyti í fyrramorgun, dagsett að Ölvesárbrú  29. nóv., kl. 6 síðd.:

Veikin er mjög útbreidd um Flóann og virðist vera einna skæðust í Hraungerðishreppi. Þar hafa dáið alls 5 menn. Á Stokkseyri er veikin heldur að réna, en mikil veikindi eru enn á Eyrarbakka. Liggja þar 20 menn í lungnabólgu, sumir allþjáðir. Veikin er mögnuð á einstaka bæjum í hreppum og Biskupstungum, eru menn gera alt til þess að reyna að tefja fyrir veikinni. Grímsnesið er undirlagt. Í Árnessýslu hafa alls dáið 20 menn. Veikin er vægari í Rangárvallasýslu, er á 11 bæjum í Fljótshlíð, 10 bæjum austur Eyjafjöllum, en vestur Fjöllin eru laus við sóttina enn. Margir eru veikir í Þykkvabænum og í austurhluta Landeyja. Í Rangárvallasýslu hafa dáið alls 14 manns. Fólki er mikið að batna þar sem veikin kom fyrst.

Til viðbótar við þessar fréttir má geta þess, að Sigurður ráðunautur kom til bæjarins í gær, og gat hann þess stuttlega við oss, að nú væru dánir 26 menn í Árnessýslu. Veikin fremur væg í Grímsnesi, og enginn dáið þar. Annars töluvert skæð á einstökum heimilum í uppsveitum sýslunnar. Meðal þeirra, sem dáið hafa í Árnessýslu, auk Gests á Hæli, má nefna Finnboga Ólafsson bónda í Auðsholti í Ölfusi, Jóhannes bónda í Miðfelli í Þingvallasveit, Guðmund Guðnason á Gýgjarhóli, 24 ára gamall, Helgu Einarsdóttur, konu Þorsteins í Langholti, Margréti Jóhannesdóttur, konu Friðriks í Hafliðakoti o. fl. Einnig gat Sigurður þess að þeir séra Ólafur í Hraungerði og Guðmundur læknir Guðfinnsson, séu báðir veikir og liggi rúmfastir.

 

Öld er liðin frá því að spænska veikin geisaði um heimsbyggðina.  Það eina sem Byggðasafn Árnesinga varðveitir um þessar hamfarir eru nokkrar síður um líkkistusmíðar smiðsins á Eyrarbakka utan um fórnalömb spænsku veikinnar.

 

Lýður Pálsson

safnstjóri

 

 

Heimildir:

https://is.wikipedia.org/wiki/Spænska_veikin

Morgunblaðið 2. desember 1918 22. tbl. bls. 2. Sótt á timarit.is

Æfiágrip Gests Einarssonar. Úr handriti Páls Lýðssonar um ýmsa merkismenn á Suðurlandi.

Páll Lýðsson:  Saga Búnaðarsambands Suðurlands, Selfossi 2008, bls. 23.

BÁ 2005-68, vinnukladdi Eiríks Gíslasonar trésmiðs á Eyrarbakka.

Ljúf aðventa á safninu

jól2018 fréttatilkynningFjölbreytt jóladagskrá og séropnanir verða á safninu á aðventu. Jólasýning safnsins opnar sunnudaginn 2. desember þar sem gömul jólatré skarta sínu fegursta. Sama dag verður skáldastund í stássstofu Hússins samkvæmt áralangri hefð og opin vinnusmiðja í músastigagerð verður í Kirkjubæ. Annan sunnudag í aðventu 9. desember heimsækir leikkonan Hera Fjord Húsið og les jólasögur fyrir börn og vinnusmiðja verður áfram opin í Kirkjubæ.  Síðustu helgi fyrir jól 15. – 16. desember verður opið báða daganna. Á laugardag syngja Lóurnar jólalög af alkunnri snilld og á sunnudag verða flutt sögubrot frá jólum fyrri tíðar. Þessa þrjá sunnudaga og einn laugardag verður safnið opið frá kl. 13 – 17 og aðventukaffi á boðstólum. Frítt verður á alla viðburði og  safnið sjálft.