MARSTAL

ágú 11, 2012

marstal1Árið 1937 endaði danska timburflutningaskipið Hertha sjódaga sína eftir strand við Eyrarbakka. Skipið var rifið og nýtt. Hertha var næst síðasta hafskipið til að stranda við Eyrarbakka.

Þegar litið ef yfir sögu sjóslysa við Eyrarbakka verður manni ljóst að þau hafa verið tíð og mannskæð þótt engin hafi farist í tilviki Herthu. Hertha var seglskip sem gert var út frá danska bænum Marstal sem liggur á eyni Ærö.

Á austurvegg Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka má sjá skilti þar sem skorið er út bæjarheitið Marstal. Hefur það prýtt skipið með sínu gyllta letri og flúruðu skrauti áður en örlög þess voru ráðin. Fyrir nokkru komu til okkar á safnið Danir sem er svo sem ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að þeim rak í rogastans þegar þau sáu merkið. Það vildi svo til að þau áttu ættir að rekja til Marstal og fannst það ótrúleg tilviljun að vera komin á safn í íslenskum smábæ og sjá þar áður nefnt merki.

Greinarhöfundi fanst svo merkilegt að ímynda sér að forfeður þessara gesta hefðu borið þetta sama skilti augum þegar það prýddi skip sitt í heimahöfn þess. Þannig varð ljóslifandi gildi þess að hafa söfn sem varðveita söguna svo að þeir sem eru á ferð fái óvænt að tengjast fortíðinni með persónulegum hætti.

 

Jón Tryggvi Unnarsson

starfsmaður á Sjóminjasafninu á Eyrarbakka

sumarið 2012