Myntsafnarinn Helgi sveipaður ljúfum tónum

okt 11, 2012

holar smaEinstakt myntsafn Helga Ívarssonar í Hólum verður til sýnis í Húsinu á Eyrarbakka á Safnahelgi á Suðurlandi dagana 2.-4 nóvember næstkomandi. Bakkadúettinn Unnur og Jón Tryggvi spila í Sjóminjasafni á laugardagskvöldið og gleymdar konur í íslenskri tónlistarsögu verða dregnar fram í dagsljósið í flutningi Sigurlaugar Arnardóttur  og Þóru Bjarkar Þórðardóttur í Húsinu á sunnudaginn.

Bóndinn og fræðimaðurinn Helgi Ívarsson (1929-2009) bóndi og fræðimaður í Hólum í Stokkseyrarhreppi var mjög virkur myntsafnari og nú sýnir Héraðskjalasafn Árnesinga safn hans í samstarfi við Byggðasafn Árnesinga. Helgi arfleiddi söfnin tvö að öllum eigum sínum.Einnig eru á sýningunni brot af innbúi Helga, m.a. skrifborð hans og ritvél auk málverka sem prýddu veggi Hólaheimilisins.

Á laugardaginn kl. 14  verða haldnir fróðlegir fyrirlestrar tengdir sýningunni þar sem Tryggvi Ólafsson bókasafnsfræðingur kynnir myntsöfnunina og Lýður Pálsson safnstjóri fjallar um sagnaheim Helga.

Sunnudagurinn verður helgaður fjórum íslenskum  kventónskáldum sem eru að mestu gleymd. Þetta voru Olufa Finsen, Guðmunda Nielsen kaupmaður á Eyrarbakka, Ingunn Bjarnadóttir og María Brynjólfsdóttir. Dagskráin verður flutt af Sigurlaugu Arnardóttur sem er jafnframt höfundur dagskrárinnar og Þóru Björk Þórðardóttur, sem útsetti lögin. Þær slá fyrstu tónana kl. 14 og í lokin mun safnið bjóða  upp á  kartöflukaffi , þar sem starfsfólk mun leyfa gestum að njóta uppskerunnar úr gamla kartöflugarði Hússins.

Við lofum gestum fallegu skammdegiskvöldi á laugardag í félagskap Unnar og Jóns Tryggva sem leika ljúf lög í Sjóminjasafninu og hefst dagskráin kl. 20.

Frítt er á alla dagskrárliði. Húsið á Eyrarbakka er opið frá föstudegi til sunnudags kl. 13-17.