Páskasýning: Konur á vettvangi karla

mar 21, 2016

Byggðasafn Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka er opið um páskana. Fimmtudaginn 24. mars opnar sýningin Konur á vettvangi karla í borðstofu Hússins.

??????????????Konur á vettvangi karla er sýning sett upp af Héraðsskjalasafni Árnesinga og er um leið afmælissýning safnsins sem fagnaði 30 ára afmæli á síðasta ári. Undirstaða sýningarinnar er unnin upp úr safnkosti héraðskjalasafnsins. Sjónum er beint að konum sem voru og eru búsettar hér í sýslunni. Tekin eru dæmi um konur sem fengu og konur sem fengu ekki kosningarétt ýmist vegna samfélagslegrar stöðu sinnar eða aldurs. Á sýningunni er rakin þátttaka sunnlenskra kvenna í stjórnmálum bæði á sveitarstjórnarstiginu og í landsmálapólitík. Nefndar eru fyrstu konurnar sem sátu sem pólitískt kjörnir fulltrúar íbúa í sínum sveitarfélögum sem aðalmenn í hreppsnefndum, oddvitar, þingkonur og ráðherrar. Þróunin er sett saman við þróunina á landsvísu og bent á ýmsa þætti sem höfðu áhrif á aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum og á að konur byrjuðu að ryðja sér braut inn á vettvang karla.

Opið er í Húsinu frá skírdegi til annars í páskum kl. 14-17. Sýninguna er á öðrum tímum hægt að skoða eftir samkomulagi til aprílloka.