Samtímarannsóknir

Byggðasafn Árnesinga hefur unnið að samtímavarðveislu í nokkur ár. SAMDOK aðferðin felst í skráningu á vettvangi frekar en söfnun gripa. Tekið eru viðtöl, ljósmyndir og hreyfimyndir og skráð á vettvangi.

SAMDOK-aðferðafræðin var kynnt íslenskum safnamönnum af Lilju Árnadóttur fagstjóra hjá Þjóðminjasafni á Farskóla íslenskra safnamanna 1997 sem þá var haldinn að Reykjum í Hrútafirði. Starfsmenn safnsins, bæði Lýður Pálsson og Linda Ásdísardóttir, hafa setið námskeið og ráðstefnur á norrænum vettvangi um samtímavarðveislu.
Rannsóknir eftir SAMDOK-aðferðinni hafa verið unnar hjá safninu og hefur það styrkt sig vel í sessi á þessum vettvangi.

Unnið er að eftirtöldum samtímaverkefnum hjá Byggðasafni Árnesinga:

 

Hvar varst þú?

Verkefnið fellst í söfnun jarðskjálftasagna frá 2008. Safnað hefur verið um 200 frásögnum fólks sem upplifði jarðskjálftann 29. maí 2008 af eigin raun.  Afrakstur söfnunarinnar mátti sjá á sýningu í Húsinu á Eyrarbakka sumarið 2009.  Safnasjóður styrkti verkefnið þ.e. úrvinnslu og vistun afraksturs en áður hafði Menningarsjóður Suðurlands styrkt sýningu á jarðskjálftasögum.

 

 

Krkdll og kassabll2Leikir barna 2009

Safnið tekur þátt í samstarfsverkefni sem kallast Leikir barna 2009 og miðar að því að rannsaka ólíka leiki barna víðs vegar um landið. Alls taka átta söfn þátt í þessu verkefni og hófst það árið 2008. Lindaf Ásdísardóttir vann vettvangsrannsókn um haustið í tveimur skólum í Árnessýslu, Flóaskóla og Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Enn er verið að vinna úr þeim gögnum og mun afraksturinn skila sér í sameiginlegri sýningu og ritefni árið 2011. Sýningin opnar 14. apríl 2011 á Þjóðminjasafni Íslands og verður farandsýning.  Verkefnið er styrkt af Safnasjóði. Sjá hér heimasíðu sýningarinnar:http://www.thjodminjasafn.is/ekki-snerta-jordina/

Brauð

Þriðja samtímarannsóknin sem Byggðasafn Árnesinga er þátttakandi í er verkefnið Hverarúgbrauðsem hófst árið 2008. Gerð er rannsókn á vinnslu hverarúgbrauðs í Hveragerði með aðstoð frá þremur ólíkum bökurum í þorpinu. Bæði er verkmenningin rannsökuð og einnig saga hverarúgbrauðs á þessu svæði. Afrakstur rannsóknarinnar verður miðlað stafrænt á netinu. Þetta er hluti af samnorrænu verkefni Bröd i Norden sem er á vegum Norsam. Fleiri söfn á Íslandi taka þátt. Safnið fær ferðastyrki til að taka þátt í verkefninu.

Brauðbrunnur nefnist vefur verkefnisins: http://braudbrunnur.wordpress.com/

og hér er fjallað um bakstur brauðs í Hveragerði: http://braudbrunnur.wordpress.com/hverarugbraud/