Saga Hússins á Eyrarbakka

HusiðBHúsið á Eyrarbakka var flutt tilsniðið til Eyrarbakka sumarið 1765. Það er elsta íbúðarhús úr timbri á Suðurlandi og í hópi elstu húsa landsins. Viðbygging við Húsið nefnist Assistentahúsið og er frá árinu 1881. Fyrir framan Húsið er sjóvarnargarður frá árinu 1800 en fyrir aftan Húsið eru útihúsin, merkast þeirra er Eggjaskúrinn sem endurbyggður var árið 2004. Illu heilli voru verslunarhúsin sjálf rifin árið 1950. Þau nefndust einu nafni Vesturbúðin og voru þyrping sex stórra timburbygginga sem stóðu við sjávarkambinn þrjúhundruð metra í vestur frá Húsinu.

Húsið var íbúðarhús kaupmanna Eyrarbakkaverslunar frá 1765 til 1926, lengstum voru eigendur þess danskir. Heitið Húsið segir til um sérstöðu þess fyrr á tímum þegar alþýðan bjó í torfbæjum en einnig gæti heitið verið stytting úr heitinu Kaupmannshúsið.

Húsið var menningarheimili þar sem margvíslegir erlendir menningarstraumar bárust um héraðið.  Fyrir það varð húsið landsfrægt á sínum tíma. Þangað komu merkir erlendir gestir eins og William Morris enskur hönnuður og heimspekingur og Thit Jensen dönsk kvennréttindakona og skáld. Var oft sagt að í Húsinu hefðu mættst dönsk borgarmenning og íslensk bændamenning. Blómatími Hússins var frá 1847 til 1930 þegar Guðmundur faktor og frú Sylvía Thorgrímsen og niðjar þeirra voru í Húsinu og Lefolii-feðgar eigendur verslunarinnar.

Árið 1932-1935 voru gert rækilega við Húsið af hjónunum Ragnhildi Pétursdóttur og Halldóri Kr. Þorsteinssyni frá Háteigi í Reykjavík. Er talið að þá hafi í fyrsta sinn verið gert við hús vegna gamalla sögu sinnar. Rækilega var svo gert við Húsið á árunum 1979-1981 af Auðbjörgu Guðmundsdóttur og Pétri Sveinbjarnarsyni.

Ríkissjóður keypti Húsið árið 1992 og komst þá fyrst í almenningseign. Þjóðminjasafn Íslands tók við Húsinu og lét gera við það en frá 3. ágúst 1995 hefur Byggðasafn Árnesinga verið með grunnsýningu sína þar.