Jólatré heimagert

Austan kirkjunnar á Eyrarbakka stendur hið aldna Kaupmannshús sem reis 1765 og er í raun aðaltákn þéttbýlismyndunar á Eyrarbakka.  Húsið var menningarheimili, fjölmennt heimili þar sem kaupmaðurinn eða faktorinn bjó ásamt fjölskyldu, hjúum og búðarsveinum. Þar var gestkvæmt. Margir kynntust þar framandi heimi.

Frá 1995 hefur Húsið á Eyrarbakka hýst sýningahald Byggðasafns Árnesinga og verið andlit safnsins út á við og umgjörð. Húsið er einnig safngripur í sjálfu sér.   Sýningar eru þar fjölbreyttar og gefa innsýn í líf og menningu genginna kynslóða í þessum landshluta. Sýningahaldið er í stöðugri þróun og var á þessu ári sett upp ný grunnsýning í Eggjaskúrnum norðan Hússins sem tengist fuglavernd. Handan Kaupmannstúnsins er Sjóminjasafnið á Eyrarbakka þar sem sjá má hinn merka grip Farsæl, tólfróinn teinæring sem smíðaður var á Eyrarbakka 1915.

Í Húsinu á Eyrarbakka hafa verið haldin jól eins og annarsstaðar.  Og hvernig jól voru haldin þar í fyrstu? Um það er erfitt að segja en dönsk áhrif hafa örugglega verið mikil því íbúarnir voru ýmist danskir eða hálfdanskir, þrátt fyrir að grundin væri íslensk.  Ýmislegt verið svipað og nú á dögum, borðaður góður matur, sungnir jólasálmar, gjafir gefnar og farið til messu á Stokkseyri, þar til kirkja reis á Eyrarbakka.

Einn er sá hlutur sem tengist jólunum í dag en þekktist ekki í Húsinu né almennt annarsstaðar í desember 1765 þegar Jens Lassen kaupmaður hélt sín fyrstu jólin í nýbyggðu Húsinu. Ekkert var þar jólatréð.  Jólatré koma ekki almennt til sögunnar fyrr en skömmu eftir aldamótin 1800.

Jólatré þekkjast frá Þýskalandi á 16. öld, og jólatré tíðkuðust almennt meðal aðalsmanna og kóngafólks í Evrópu á 17. og 18. öld.  Þá er einnig farið að festa logandi kerti á greinarnar.  Jólatré voru fyrst og fremst hjá efnuðu fólki til að byrja með en afbrigði þeirra meðal fátækra  þekkjast þó enn sem aðventukransar.

Til Norðurlandanna berst þessi siður eftir 1800 og breiðist smátt og smátt út, fyrst til heldra fólksins, og svo til alþýðunnar en til Íslands kemur siðurinn um 1850 með dönskum kaupmönnum. Upp úr aldamótunum 1900 fer jólatrjám að fjölga, ekki síst eftir að farið var að auglýsa slíkan varning í verslunum og eftir 1940 fara þau að seljast í stórum stíl.

Hér á Íslandi voru jólatré á 19. og framan af 20. öld nokkuð frábrugðin evrópskum jólatrjám. Hér voru engin grenitré eða barrskógar eins og á meginlandi Evrópu. Og varð því að búa til jólatré úr spýtum. Á minjasöfnum landsins má finna spýtujólatré frá þessum tímum í ýmsum afbrigðum – en þau má kalla forvera þeirra jólatrjáa sem í dag eru algeng.

Árlega heldur Byggðasafn Árnesinga jólasýningu sem að jafnaði vekur athygli.  Elstu jólatrén  eru mjög einföld og hafa þrátt fyrir einfaldleikann að öllum líkindum verið miðpunktur jólahalds fyrr á tímum.

Á jólasýningunni í Húsinu eru auk jólatrjáa og gömlu jólasveinanna frásagnir tengdar jólum og jólatrjám.  Fyrir þremur árum barst mér í hendur sjálfsæfisaga manns sem fæddist og óx upp í Húsinu. Þetta var  Hans B. Thorgrímsen sem fæddur var 1853 en lifði mestan hluta sinnar æfi í Ameríku. Hans B.Thorgrímsen bjó í Húsinu frá fæðingu til tólf ára aldurs.  Í sjálfsæfisögu sinni greinir hann stuttlega frá jólunum í Húsinu þegar hann var barn á árunum kringum 1860 og byrjar lýsingu sína á kröftugum hreingerningum á aðfangadag. Hann segir:

„Við vorum böðuð reglulega upp úr sjó sem vinnumennirnir komu með úr fjörunni sem var rétt hjá, margar fötur í karið. Man ég eftir baðinu á aðfangadag? Og man ég eftir  rauðu sokkunum og leðurskónum, eina skiptinu sem okkur var leyft að vera í þessum klæðnaði, og svo jólatrénu, heimagerðu úr spýtum, sem við horfðum á í andakt, en seinna var það þakið með einiviðargreinum. Mikið af eplum og sætindum. Ein jólin fékk ég lítinn vasahníf í jólagjöf, önnur rauð axlabönd, það var allt og sumt. Ein jólin bjó faðir minn til frekar stóran helli úr einiviðargreinum og setti lítið kristlíkneski eftir Thorvaldsen inn í hann, hagræddi því svo að það lýstist upp. Svo stóðum við fyrir framan hellinn og sungum jólalög, fyrst „Heims um ból“. Við fengum ekki að sjá þesssi tré eða hella fyrr en stofan var opnuð, sáum þau aldrei fyrr en á aðfangadagskvöld eftir jólamatinn. En helgidómurinn var opnaður og við fórum inn með sterka gleði og eftirvæntingu í augum okkar og hjörtum.“

Svona hljómar frásögn Hans Thorgrímsens.  Er þetta elsta varðveitta frásögnin um jólatré á heimili hér á landi?

gamla trÍ Byggðasafni Árnesinga er talið að finna megi elsta varðveitta spýtujólatré landsins.  Það er jólatré sem smíðað var fyrir danskættaða prestmaddömu í Hruna, Kamillu sem gift var Steindóri Briem presti þar á síðustu áratugum 19. aldar.   Kamilla og sr. Steindór hófu búskap í Hruna árið 1873.  Segir sagan að fyrir fyrstu jólin í þeirra búskap hafi Kamilla lagt ríka áherslu á að koma sér upp jólatré eins og var á hennar æskuheimili en faðir hennar var danskur kaupmaður úr Hafnarfirði.  Til að smíða það var fenginn laghentur maður í hreppnum, Jón Jónsson bóndi í Þverspyrnu. Þar sem ekki voru grenitré í uppsveitunum á þessum tíma hlýtur verklýsingin að hafa verið flókin. En ef til vill bara einföld teikning eða mynd úr dönsku blaði.  Jólatréð fór til dóttur Kamillu, Elínar Steindórsdóttur sem lengstum var búsett í Oddgeirshólum í Flóa.  Á eldri árum gaf Elín Byggðasafni Árnesinga jólatréð.  Jólatréð frá Hruna er aðalgripur jólasýningarinnar sem við höldum árlega og leggjum við áherslu á að skreyta það með lyngi eins og forðum.

Safnið á þrjú önnur spýtujólatré. Þau eru frá Grímsnesi, frá Eyrarbakka og hið þriðja er talið smíðað af Gísla Brynjólfssyni bónda í Haugi í Gaulverjabæjarhreppi. En svo komu nýju gerfijólatrén í lok seinni heimstyrjaldar og þau var nú bara hægt að kaupa í Kaupfélaginu eða öðrum verslunum. Þau eru nokkur til hér á söfnunum á Eyrarbakka.  En svo kom rafmagnið – og með rafmagninu þótti tilhlýðilegt að kaupa jólaljósaseríur sem miklu minni eldhætta stafaði af.

Eitt jólatré frá þessum tíma er mér kærara en önnur.  Það er jólatré sem amma mín Aldís Pálsdóttir í Litlu-Sandvík átti og dró á hverjum aðfangadagsmorgni út úr skáp í gestaherberginu og setti á áberandi stað á prjónavélaskáp við hlið sjónvarpsins. Jólatréð hennar ömmu var með mjög svo skrautlegum bjölluljósum, framleiddum á Reykjalundi og það sem mér þótti mest spennandi, sökkullinn sem stofn trésins var festur í var þakinn skrautlegum jólagjafapappír svo að hann virkaði sem jólapakki.

Að lokum langar mig til að hugleiða svolítið vinsældir þessa jólasiðar að halda jólatré um jólin. Hversvegna hafa jólatré í rúma heila öld verið eitt helsta tákn jólanna um heim allan? Jólatréð er hluti af eftirvæntingunni.  Jólatré eru falleg og gefa frá sér birtu. Ekkert þeirra er eins. Þau eru til í óteljandi tilbrigðum og eru að sjálfsögðu hluti af  hátíðleikanum og ramma inn þessa hátíð okkar sem haldin er um allan hinn kristna heim til að minnast fæðingu frelsarans sem fæddist við undarleg skilyrði, í jötu, í fjárhúsi, í Betlehem fyrir ríflega tveimur þúsöldum.

Ég óska lesendum góðar aðventu og gleðilegra jóla.

 

Lýður Pálsson

 

 

Helstu heimildir:

Saga Daganna eftir Árna Björnsson

Handrit að sjálfsæfisögu Hans Baagoe Thorgrímsen (1853—1942), ísl. þýðing Erlingur Brynjólfsson.

Aðfangaskrá Byggðasafns Árnesinga.  

 

Upphaflega birt í Bláhver blaði Sjálfstæðismanna í Hveragerði í desember 2005.