Lækurinn eftir Guðmundu Nielsen
Lækurinn við ljóð Gísla Ólafssonar frá Eiríksstöðum í Svartárdal er ein af þekktustu tónsmíðum Guðmundu Nielsen. Hún ólst upp í Húsinu á Eyrarbakka og bjó þar til 1930. Hér til hliðar er Lækur Guömundu Nielsen en raddsetningu samdi Þorkell Sigurbjörnsson tónskáld. Vísa Gísla í öllum erindunum er svona:
Ég er að horfa hugfanginn
í hlýja sumarblænum
yfir litla lækinn minn
sem líður fram hjá bænum.
Ó, hve marga æskustund
áður hér ég dvaldi.
Saklaust barn með létta lund
og leggina mína taldi.
Bæ ég lítinn byggði þar
blómum utan skreytti.
Yfir tún og engjarnar
oft ég læknum veitti.
Nú er ekkert eins og fyrr
á öllu sé ég muninn.
Liggja tíndir leggirnir
og litli bærinn hruninn.
Æskan hverfur, yndi dvín.
Allt er líkt og draumur.
Áfram líður ævin mín
eins og lækjarstraumur.
Meðan æðum yljar blóð
og andinn má sig hræra.
Vil ég syngja lítið ljóð
um lækinn silfurtæra.
Þegar eg er uppgefinn
og eytt er kröftum mínum
langar mig í síð´sta sinn
sofna á bökkum þínum.