Píanóið í Húsinu
Píanóið í Húsinu á Eyrarbakka er af gerðinni Hornung og Möller, smíðað í Kaupmannahöfn í janúar 1871. Enga vissu höfum við fyrir því hvenær það kom í Húsið en það er vissulega gripurinn sem sjá má á ljósmynd úr stássstofunni tekna um aldamótin 1900.
Heimildir greina frá píanói í Húsinu á bilinu 1855 til 1872. Hans B. Thorgrímsen sem fæddur var í Húsinu 1853 greinir frá undrahljómum þess í sjálfsævisögu sinni. Það hefur þá verið píanó í Húsinu áður en núverandi píanó kom þangað.
Páll Ísólfsson greinir frá töfratónum hljóðfærisins í viðtali en hann kom í Húsið átta ára gamall með föður sínum og heyrði þá í fyrsta sinn í píanói. Það hefur verið skömmu eftir aldamótin 1900. Ýmsar frásagnir segja frá píanóinu og þeirri miklu tónlist sem heyra mátti í Húsinu og allri tónlistarmenningunni sem þaðan barst. Vagga tónlistar austan Fjalls var í Húsinu á áratugunum kringum 1900. Sylvía Thorgrímsen faktorsfrú lærði á píanó áður en hún flutti í Húsið 1847. Dóttir hennar Eugenía Nielsen hélt uppi mikilli tónlist í búskapartíð sinni í Húsinu á tímabilinu 1887 til 1916. Dóttir hennar Guðmunda Nielsen kenndi mörgum á píanóið í þessari stofu um langt skeið á fyrstu áratugum 20. aldar. Tala eldri Eyrbekkingar gjarnan um píanóið hennar Mundu.
Þegar Húsið var komið í vanhirðu skömmu fyrir 1930 eignaðist Páll Ísólfsson hljóðfærið. Byggðasafn Árnesinga eignaðist það árið 1955. Það fór svo á sinn upprunalega stað í stássstofunni og er píanóið einn merkasti gripur Hússins á Eyrarbakka. Það er í lagi og stillt reglulega fyrir tónleika sem stundum eru haldnir í Húsinu.