BÓKAUPPLESTUR OG JÓLASÝNING

nóv 23, 2017

jolasyning

Jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga er búin að vera árviss viðburður í 25 ár og verið fastur hluti af starfsemi safnsins.  Ekki verður brugðið út af venjunni frekar en áður  og jólin á safninu halda innreið sína með sínum föstu liðum sem eru jólasýning og bókaupplestur.
Lesið verður úr nýútkomnum bókum í stássstofu Hússins á Eyrarbakka laugardaginn 2. desember kl. 16-18. Fimm rithöfundar lesa úr verkum sínum. Guðríður Haraldsdóttir les úr bókinni  Anna Eins og ég er um magnað lífshlaup Önnu Kristjánsdóttur. Einar Már Guðmundsson les úr sinni eldfjörugu skáldsögu Passamyndum.  Guðmundur Brynjólfsson les svo úr skáldsögu sinni Tímagarðurinn um reynsluheim íslenskra karlmanna.  Margrét Lóa Jónsdóttir kynnir og les úr ljóðabókinni biðröðin framundan. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir færir okkur inn í heim formæðra sinna í bókinni Það sem dvelur í þögninni.
Jólasýning safnsins verður opin sama dag kl. 13-16 og músastiga-vinnusmiðja verður í Kirkjubæ kl. 13-15. Á jólasýningunni gefur að líta gömul jólatré og jólatengda muni sem safninu hefur áskotnast af fólkinu í héraðinu í gegnum tíðina.  Í öndvegi verður jólatréð frá Hruna sem Jón Jónsson í Þverspyrnu er sagður hafa smíðað fyrir jólin 1873 og talið er elsta varðveitta jólatré landsins.  Jólatréð hefur eignast tvíbura í endurgerð þess smíðaðri af Guðmundi Magnússyni í Steinahlíð árið 2017.
Jólasýningin verður svo opin sunnudagana 3. og 10. des. kl. 13-17 og hópar eftir samkomulagi. Sönghópurinn Lóurnar tekur  lagið sunnudaginn 10. desember kl. 15 og syngur nokkur falleg jólalög.
Kaffi og smákökur að venju í eldhúsi Hússins, allir velkomnir  og aðgangur ókeypis.

Uppbyggingasjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.

Gurrí Margrét Lóa Guðmundur Brynjólfsona nota asta_b&w EinarMár_2017_Gassi_Lit_NOTA