Byggðasafn Árnesinga 70 ára

jún 1, 2023

Á árunum eftir heimstyrjöldina síðari varð mikil umbylting í tækni og lífsgæðum fólks hér á landi. Var það á öllum sviðum mannlífsins. Gamla íslenska bændasamfélagið var óðum að hverfa og flutningar úr sveitum í þéttbýli.

Í Árnessýslu döfnuðu Mjólkurbú Flóamanna og Kaupfélag Árnesinga í ört vaxandi þéttbýli á Selfossi og sammælst var um nýja höfn í Þorlákshöfn sem Sýslunefnd Árnessýslu, skipuð helstu mönnum hvers hrepps, studdi mjög en Kaupfélag Árnesinga ruddi brautina. Landbúnaður var í sveitunum og við ströndina blómstruðu útgerðarstaðir á Eyrarbakka, Stokkseyri og síðan Þorláksöfn. Til urðu þéttbýliskjarnar með garðyrkju sem atvinnugrein og þeirra stærstur Hveragerði.

Jafnframt voru ný tæki komin til sögunnar og ýmsir gamlir gripir sem voru búnir að sinna hlutverki sínu lagðir til hliðar. Þá komu upp tillögur um að stofna byggðasafn til að varðveita og sýna gamla muni úr gamla samfélaginu sem væru einkennandi fyrir Árnessýslu. Fyrstu tillögur um Byggðasafn Árnesinga voru lagðar fram árið 1942 í Sýslunefnd Árnessýslu en ekkert gerðist. Aftur vorið 1952 lögðu tveir mætir fulltrúar í sýslunefnd það til að stofnað yrði til safns. Árnesingar höfðu fylgst með samskonar stofnun safna í öðrum héruðum landsins og sjálfsagt þótti að feta sömu leið og Árnesingar eignuðust sitt safn líka. Skipuð var nefnd og málin þróuðust þannig að Skúli Helgason frá Svínavatni (1916-2002) var fenginn til söfnunarstarfa.

Skúli hafði sýnt þessum málum áhuga og átti í sinum fórum gamla gripi úr héraðinu.  Hann lagði þá til hins nýja safns og í aðfangabók Byggðasafns Árnesinga byrjaði hann að skrifa upp gripina 1. júní 1953 sem þykir við hæfi að telja stofndag safnsins. Þann dag bárust honum sjö gripir frá Arnarstöðum í Flóa.  Fleiri gjafir bættust við næstu mánuði víðsvegar að úr héraðinu. Safnkostinn varðveitti hann í kjallara íbúðarhúss síns á Selfossi.

Skúli Helgason fór í söfnunarferðir um Árnessýslu sumarið 1954 og varð vel ágengt. Til 1970 safnaði hann um 1100 gripum sem mynduðu stofninn að fyrstu grunnsýningu safnsins að Tryggvagötu 23 á Selfossi og opnaði um mitt ár 1964.  Safnað var munum úr öllu héraðinu frá flestum kimum gamla samfélagsins. Jafnframt var deilt um stefnu safnins og framtíð og að endingu hvarf Skúli úr héraðinu vonsvikinn yfir því að metnaðarfullar hugmyndir hans að útisafni fyrir utan á á Selfossi yrðu ekki að veruleika.

Bylting varð í starfsemi Byggðasafns Árnesinga þegar Héraðsnefnd Árnesinga, arftaki sýslunefndarinnar, samþykkti árið 1992 að flytja Byggðasafn Árnesinga niður á Eyrarbakka, þann forna útgerðar- og verslunarstað. Þegar þessi ákvörðun var tekin var Hildur Hákonardóttir veflistakona forstöðumaður sem sá að safnið myndi ekki þróast og dafna með fullnægjandi hætti á Selfossi. Með samstilltu átaki og mikilli vinnu var ný grunnsýning opnuð í Húsinu á Eyrarbakka 3. ágúst 1995. Þá var Hildur horfin frá forstöðumannsstarfinu og ég undirritaður tekinn við.

Það þykir við hæfi að hafa Byggðasafn Árnesinga í elsta timburhúsi Suðurlands, Húsinu á Eyrarbakka sem byggt var 1765 og var kaupmannsetur til 1927. Húsið er nú hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. En það er vandi að hafa safnmuni þar til sýnis þannig að sómi sé að og hefur verið vandað til verka.  Byggðasafn Árnesinga tók við rekstri Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka árið 2001 og árið 2016 opnaði ný sýning í Kirkjubæ í hjarta Eyrarbakka. Jafnframt hefur safnið umsjón með Rjómabúinu á Baugsstöðum og viðræður í gangi við Þjóðminjasafn Íslands um umsjón með húsinu Eyri á Eyrarbakka sem byggt var snemma á 20. öld og er upprunalegt að utan sem innan.

Innri aðstaða við Byggðasafn Árnesinga var engin á fyrstu áratugum þess. Safninu var sinnt í hlutastarfi um langt skeið en Hildur Hákonardóttir réðst að safninu í fullt starf árið 1986 og gerði góðar breytingar á grunnsýningu safnsins. Þá varð til fyrsta varðveisluaðstaða safnsins í kjallara Hótels Selfoss. Þörfin á varðveisluaðstöðu varð til vegna þess að stöðugt bárust að safninu ný aðföng úr héraðinu sem vert þótti að varðveita. En sýningar eflast ekki í samræmi við aukinn safnkost og sýning og varðveisla lúta ólíkum lögmálum innan safna. Árið 2002 tók Byggðasafn Árnesinga í notkun þjónustuhús fyrir varðveislu og skrifstofu og hlaut safnið Íslensku safnverðlaunin fyrir byggingu þess sama ár enda einstakt á landsvísu að safn reisti sér hús fyrir innri starfsemi sína. Og áfram frá 2002 hafa bæst við safnið gripir og jafnvel heil söfn þannig að árið 2019 samþykkti Héraðsnefnd Árnesinga að kaupa hið svonefnda Alpan-hús á Eyrarbakka fyrir innra starfið. Að lokum viðgerðum og aðlögun hússins að starfsemi Byggðasafns Árnesinga er varðveisluaðstaðan með miklum ágætum og safnið í fararbroddi íslenskra safna hvað varðar aðbúnað safnmuna.

Við safnið starfa nú þrír fagmenntaðir starfsmenn auk lausráðinna starfsmanna í gæslu og þrifum en stöðugildin árið 2022 voru tæp fjögur.

Eftir sjötíu ár er starfsemi Byggðasafns Árnesinga í blóma. Við sem störfum alla daga við safnið höfum nóg að sýsla við að framfylgja hlutverki safnsins að safna, varðveita, rannsaka og sýna safnmuni úr Árnessýslu.  Allur safnkostur er skráður og upplýsingar um hann leitarbær og aðgengilegur í Sarp og unnið að myndvæðingu færslna. Húsið á Eyrarbakka er andlit safnsins og þangað ekki í kot vísað.  Samstarf safnsins við aðra er af margvíslegu tagi.  Á sýningar safnsins í hjarta Eyrarbakka streyma gestir af ólíkum toga, innlendir sem erlendir og fjöldi skólahópa. Um þessar mundir kynnum við, með Listasafni Árnesinga, Ásgrím Jónsson frá Rútsstaða-Suðurkoti í Flóa sem á árunum 1890-1892 var vikapiltur í Húsinu á Eyrarbakka og síðan okkar fremsti listmálari. Snemma í haust verður sérstök sýning á völdum safnkosti Byggðasafns Árnesinga í tilefni 70 ára afmælis safnsin. Fyrir liggja hugmyndir um að endurnýja grunnsýningu í hluta safnsins á næstu árum. Jafnframt eru stefnumótandi umræður í gangi meðal starfsmanna og stjórnar um framtíðar- og varðveislustefnu.

Undanfarna áratugi hefur það líka verið gæfa safnsins að eiga í góðu samstarfi við eiganda sinn sem er Héraðsnefnd Árnesinga og skipuð er okkar fremsta fólki úr sveitarstjórnum Árnessýslu. Héraðsnefnd Árnesinga er byggðasamlag átta sveitarfélaga héraðsins. Stuðningur og áhugi nefndarinnar að reka söfn og stofnanir á héraðsvísu er ómetanlegur og fyrir það má þakka.

Lýður Pálsson

safnstjóri Byggðasafns Árnesinga.