Drengurinn, fjöllin og Húsið

mar 17, 2023

Ásgrímur Jónsson listmálari í Húsinu á Eyrarbakka

Á páskasýningu safnsins, Drengurinn, fjöllin og Húsið, er fjallað um æsku og unglingsár Ásgríms Jónssonar listmálara. Ásgrímur var fæddur og uppalinn í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Æskustöðvar hans höfðu djúp áhrif á hann, hinn víðfeðmi fjallahringur, ljós og skuggar árstíðanna, útilegumannasögur á vökunni og hljóðið í briminu eru aðeins örfá atriði sem fylgdu honum ævina á enda og voru brunnur endurminninga sem hann gat sífellt sótt í. Í Húsinu á Eyrarbakka var Ásgrímur vikapiltur um tíma. Fólkið í Húsinu sá þann efnivið sem í piltinum var og þar eignaðist hann sína fyrstu vatnsliti.

Ásgrímur með vatnsfötur fyrir norðan Húsið árið 1890. Ljósmyndina tók kaupmannsfrúin Oline Lefolii.

Sýningin verður opnuð 1. apríl næstkomandi og er hluti af afmælisþríleik Byggðasafns Árnesinga og Listasafns Árnesinga sem er unnin í samstarfi við Listasafn Íslands. Þríleikurinn samanstendur af sýningunni Drengurinn, fjöllin og Húsið í borðstofu Hússins á Eyrarbakka, sýningunni Hornsteinn á Listasafni Árnesinga í Hveragerði og Ásgrímsleiðinni sem er rekur sig um söguslóðir Ásgríms með viðkomu á sýningum safnanna.

Byggðasafnið fagnar á árinu 70 ára afmæli og Listasafn Árnesinga fagnar 60 ára afmæli. Arfleið Ásgríms listmálara, sveitadrengsins úr Árnessýslu finnst í báðum söfnum.  Upplýsingar um sýningarnar og Ásgrímsleiðina verður hægt að nálgast á heimasíðum safnanna og samfélagsmiðlum.

Við bjóðum alla velkomin á sýningaropnun kl. 15.00 laugardaginn 1. apríl í Húsinu á Eyrarbakka.