Hvað á húsið að heita?

Byggðasafn Árnesinga flytur á næstu vikum innri starfsemi sína í Búðarstíg 22 á Eyrarbakka sem byggt var á tímabilinu 1970-1983 sem fiskvinnsluhús. Um langt skeið var þar rekin álpönnuverksmiðja en Byggðasafn Árnesinga keypti húsið árið 2019. Síðan þá hafa iðnaðarmenn verið að störfum og er verið að aðlaga húsið að þörfum safnsins. Í húsinu verður varðveisluaðstaða fyrir safnkostinn, vinnuaðstaða, skrifstofur starfsmanna og fjölnota sýningarsalur.   read more

Eyrarbakkaljósmyndir Sigurðar kaupmanns

Þann 27. mars kl. 14 opnar sýning á Eyrarbakkaljósmyndum Sigurðar Kristjánssonar kaupmanns á Eyrarbakka. Sýningin er haldin í borðstofu Hússins á Eyrarbakka.

Sigurður Kristjánsson (1896-1977) kaupmaður á Eyrarbakka var áhugaljósmyndari sem tók myndir af sínu nánasta umhverfi hvort sem það var fjölskyldan, heimilið, þorpið eða hátíðarhöld. Athyglisverðar eru ljósmyndir hans af gömlum húsum og staðsetningu þeirra sem gefa einstakt sjónarhorn á Eyrarbakka um miðja 20. öld. Mörg húsanna sem Sigurður fangaði með ljósmyndavél sinni eru nú horfin. read more

Ferðalangar í heimsókn

Það var líf og fjör hjá okkur á Byggðasafni Árnesinga fyrir skemmstu þegar galvaskir hópar frá leikskólanum Álfheimum brugðu undir sig betri fætinum og tóku strætó frá Selfossi og hingað á Eyrarbakka til okkar. Heimurinn hafði sannarlega stækkað, mátti lesa úr svip þessara yndislegu barna sem skoðuðu alla króka og kima safnsins áður en þau héldu til fundar við leikskólastjórann sinn sem hafði komið með hádegismatinn þeirra á Eyrarbakka. Eftir mat teiknuðu þau fyrir okkur myndir og síðan héldu þau könnunarferð sinni áfram, gölluðu sig upp og héldu syngjandi glöð í fjöruferð. Við þökkum kærlega fyrir okkur og vonum að þau taki fljótlega aftur strætó til okkar! read more

Safnfræðsla í Fjölbrautaskóla Suðurlands

Starfsmenn Byggðasafns Árnesinga heimsóttu nemendur Ergo – Umhverfisfræði  í Fjölbrautaskóla Suðurlands á dögunum. Tilefni heimsóknarinnar var fræðsludagskrá sérsniðin að viðfangsefni nemendanna í áfanganum. Yfirskrift heimsóknarinnar var Saga hluta, saga mannkyns, saga jarðar. Nemendur fengu innsýn í sögu safna og tilgang þeirra fyrr og nú. Eins voru ýmsir safnmunir skoðaðir og settir í samhengi sem undirstrikaði smæð mannsins í hinu „stóra samhengi“ en jafnframt þau gífurlegu áhrif sem mannkynið hefur haft á jörðina á afar stuttum tíma. Nemendur unnu í framhaldinu verkefni um eigin föt, veltu fyrir sér uppruna og sögu textílsins og skráðu hann líkt og um eiginlegan safnmun væri að ræða. Það var verulega skemmtilegt að hitta þessa vösku krakka sem sannarlega eru að kljást við stórar spurningar á hverjum degi. read more

Framkvæmdir við safnið

Í vor flytur Byggðasafn Árnesinga innri aðstöðu sína úr Hafnarbrú 3 í Búðarstíg 22. Búðarstígur 22 er að jafnaði nefnt Alpan-húsið en nú væri upplagt að finna byggingunni nýtt nafn í takt við nýtt hlutverk. Húsnæðið var keypt af safninu árið 2019 fyrir innra safnastarf, skrifstofur, varðveisluaðstöðu, fræðslurými og sýningarsal. Síðan húsnæðið var keypt hefur verið unnið að framkvæmdum og stefnt að verklokum í vor.

Grímur Jónsson verktaki og menn hans ásamt undirverktökum hafa undanfarna mánuði unnið að viðgerðum og aðlögun húsnæðis að nýju hlutverki. Framkvæmdum lýkur í apríl. read more

Jólakveðja

Byggðasafn Árnesinga sendir hugheilar jóla- og nýárskveðjur til allra velunnara sinna og starfsmanna. Árið 2020 var fordæmalaust ár. Vonandi verður næsta ár gæfuríkara.

Fróðleg, endurnærandi og stórskemmtileg fjölskyldustund

Mæðgurnar, Eva María Jónsdóttir og Sigríður Sigurpálsdóttir Scheving, sögðu frá hinum gömlu og gráglettnu jólum í streymi á Byggðasafni Árnesinga sl. sunnudag. Stundin var ljúf, fræðandi og verulega skemmtileg. Mæðgurnar töfruðu fram hina ýmsu jólaþræði fortíðar í sameiningu. Allt frá dögunum hundrað sem nauðsynlegir þóttu til jólaundirbúnings til hættunnar á því að sjá dingulfót fyrir utan gluggann á sjálfa jólanóttina. Jólastundin er aðgengileg hér fyrir neðan. read more

Er Grýla grænmetisæta?

Ævintýrið um Augastein er hugljúft jólaævintýri þar sem sögusviðið er gamla bændasamfélagið. Í ævintýrinu er að finna skýringuna á því hvers vegna íslensk börn eiga þann skemmtilega sið að setja einn skó út í glugga þrettán nóttum fyrir jól. Hver hefur ekki velt því fyrir sér? Byggðasafn Árnesinga fékk Augastein í heimsókn þessa aðventu og er jólaævintýrið aðgengilegt fyrir alla á heimasíðu safnsins, byggdasafn.is. Höfundur sögunnar, Felix Bergsson, hleypti sögunni af stokkunum í Húsinu á Eyrarbakka 1. desember síðastliðinn þegar hann las fyrsta hlutann. Hann fékk til sín góða gesti sem fylgdust vel með og höfðu ýmislegt til málanna að leggja. Börn af leikskólanum Brimveri voru stórskemmtilegir gestir og þau hafa ekki miklar áhyggjur af Grýlu nútímans. Samkvæmt þeirra heimildum þá er hún nú orðin grænmetisæta sem étur aðeins fjallagrös og sýður jurtaseyði. read more

Gamla jólatréð skreytt

Nemendur 10. bekkjar Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri komu í heimsókn í morgun 27. nóvember og skreyttu eftirlíkingu af elsta jólatré landsins, jólatrénu frá Hruna sem Jón Jónsson í Þverspyrnu smíðaði fyrir prestfrúna Kamillu Briem árið 1873.

Skreytingin gekk mjög vel. Safnstjóri fór á mánudag upp í Snæfoksstaðaskóg og tíndi lyng til að skreyta með.  Að verki loknu voru kakó og smákökur í boði. Síðan skoðaði hópurinn safnið. Meðfylgjandi ljósmynd sýnir hópinn ásamt jólatrénu. read more

Jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga 2020

Bókaupplestur, jólaævintýri, gráglettin jól, jólalög og jólasýning Hússins

Það verður nóg um að vera á aðventunni hjá Byggðasafni Árnesinga. Í Húsinu verða skáld, jólaævintýri, ljúfir jólatónar og gömlu jólin. Öllum viðburðum verður streymt á Facebooksíðu Byggðasafns Árnesinga og hér á heimasíðu safnsins.

Sunnudaginn 29. nóvember, klukkan 16:00. Skáldastund í streymi. Rithöfundar lesa úr nýútkomnum verkum sínum í Húsinu á Eyrarbakka. Vilborg Davíðsdóttir les úr skálsögu sinni Undir Yggdrasil, Pjetur Hafstein Lárusson segir frá ljóðabók sinni Undir mánans fölu sigð og fer með nokkur ljóð, Guðjón Friðriksson les úr riti sínu Samvinna á Suðurlandi I-IV, Eyrún Ingadóttir les úr skáldsögu sinni Konan sem elskaði fossinn, Guðmundur Brynjólfsson les úr verki sínu um Eyjólf sýslumann Síðasta barnið og Guðrún Guðlaugsdóttir les upp úr glæpasögu sinni Hús harmleikja en sögusviðið er Eyrarbakki. read more