Hafsjór í Húsinu á Eyrarbakka

maí 17, 2022

Á miðvikudagskvöld 18. maí er tilvalið að líta inn í Húsið á Eyrarbakka en þar verður lauflétt kynning á alþjóðlegu listahátíðinni Hafsjó – Oceanus og hefst samkoman kl. 19.00. Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir listakona og sýningarstjóri kynnir nýhafna listahátíð og listamenn frá öllum heimshornum taka á móti gestum. Kakó, smákökur og furðusnakk verður í boði og allir eru velkomnir.  

Sjálf listahátíðin verður lyftistöng fyrir samfélagið því á næstu vikum munu listamennirnir vinna verk sín á Eyrarbakka og sækja innblástur bæði úr nærsamfélaginu og úr safninu. Afraksturinn verður sumarsýning sem mun teygja sig um fjölmörg rými byggðasafnsins. Í heilan mánuð verða líka alls kyns viðburðir, vinnusmiðjur og uppákomur í boði fyrir gesti og gangandi og er vert að fylgjast vel með okkur á samfélagsmiðlum því ýmislegt verður kynnt með stuttum fyrirvara. Nánari um listhátíðina má sjá á samfélagsmiðlum og á heimasíðunni www.oceanushafsjor.com

Alþjóðlegi safnadagurinn er þennan sama dag 18. maí og þetta árið er lögð áhersla á mátt safna til að stuðla að nýsköpun, fræðslu og sjálfbærni.

Fjölmargir hafa styrkt listahátíðina Hafsjó – Oceanus og sendum við þeim bestu þakkir.