Í spor Ásgríms – fjölskylduleiðsögn

maí 8, 2023

Fjölskylduleiðsögn í Húsinu á safnadaginn 18. maí

Í spor Ásgríms

Hvernig væri að stökkva örlítið aftur í tímann í Húsinu á Eyrarbakka og kynnast Ásgrími Jónssyni, sveitastráknum sem varð frægur listmálari? Á Alþjóðlega safnadeginum 18. maí kl. 11.00 munu safnverðirnir Ragnhildur og Linda bjóða upp á fjölskylduleiðsögn um ýmsa kima safnsins. Gestum gefst tækifæri til að feta í fótspor Ásgríms í Húsinu og kynnast bernskuárum hans í Flóanum. Ýmislegt verður brallað, skoðað og skapað.

Sýningin  „Drengurinn, fjöllin og Húsið“ er hluti af leiðsögninni en þar er fjallað um hugarheim og þroska drengsins Ásgríms sem fæddist í Suðurkoti í Rútsstaðarhverfi árið 1876. Ásgrímur var vikapiltur í Húsinu frá fermingu, þar fékk hann sína fyrstu vatnsliti og hugrekkið til að gera listina að ævistarfi.   

Frítt verður inn á safnið þennan dag í tilefni safnadagsins en í ár er unnið með þemað „Söfn, sjálfbærni og vellíðan“.

Byggðasafn Árnesinga er opið alla daga fram á haust kl. 10.00 – 17.00.