Jólin koma í Húsið

nóv 21, 2019

Eftirlíking af elsta jólatré Íslands er skreytt fyrir jólasýninguna. Elsta jólatréð verður líka á jólasýningunni en það var smíðað fyrir prestmaddömuna í Hruna árið 1873.

Fjölbreytt jóladagskrá og séropnanir verða á safninu á aðventu. Jólasýning safnsins opnar sunnudaginn 1. desember þar sem gömul jólatré skarta sínu fegursta. Sama dag verður skáldastund í stássstofu Hússins samkvæmt áralangri hefð.  Jólasýningin verður opin 1., 7., 8., 14. og 15. des. kl. 14-17 og fyrir hópa á öðrum tímum eftir samkomulagi. Annan sunnudag í aðventu 8. Des. kl. 15 heimsækir orgelsmiðurinn Björgvin Tómasson Húsið og kemur með lírukassann sinn. Leikin verða jólalög. Sunnudaginn 15. des. kl. 15 kemur sönghópurinn Lóur og syngur inn jólahátíðina með alþekktum jólalögum. Aðventukaffi er á boðstólum og frítt á alla viðburði og safnið sjálft.