Með mold á hnjánum – sýning um garðyrkju í Árnessýslu

mar 30, 2022

Páskasýningin í Húsinu á Eyrarbakka þetta árið ber heitið Með mold á hnjánum og er samstarfsverkefni Héraðsskjalasafns Árnesinga og Byggðasafns Árnesinga. Sýningaropnun verður laugardaginn 9. apríl kl. 13.00 þegar Byggðasafnið opna dyr sínar fyrir gestum.

Á sýningunni Með mold á hnjánum verður stiklað á stóru yfir sögu og þróun garðyrkju í Árnessýslu. Garðyrkja hefur stuðlað að uppbyggingu þéttbýlis og haft mikil áhrif á byggðaþróun í sýslunni. Rakin verður þróun ræktunar frá heimagörðum torfbæja upp í umfangsmikla atvinnugrein sem skapar fjölda manns atvinnu með hugvitsamlegri nýtingu náttúruauðlinda víða í sýslunni. Sýning er unnin upp úr safnkosti Héraðsskjalasafnsins ásamt öðrum heimildum um garðyrkju í Árnessýslu.

Húsið á Eyrarbakka er með opið um og yfir páska milli 13:00 og 17:00 frá 9. apríl fram yfir hátíðina Vor í Árborg sem lýkur 24. apríl. Þann 1. maí hefst svo sumaropnun byggðasafnsins og verður hægt að skoða sýninguna alla daga vikunnar fram til 6. júní á almennum opnunartíma safnsins. Ókeypis verður á sýninguna við opnun 9. apríl auk opnunar á Vor í Árborg en annars gildir almennt safngjald. Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Verið velkomin.

Héraðsskjalasafn Árnesinga og Byggðasafn Árnesinga