Afhverju “Húsið”?
Lengi vel þá skagaði Húsið upp yfir öll önnur íbúðarhús á Eyrarbakka en meginþorri íbúa Eyrarbakka bjó í láreistum torfbæjum. Húsið var því langt fram á 19. öld gjörsamlega ólíkt öllum öðrum íbúðarhúsum á Eyrarbakka, byggt úr timbri, á tveimur hæðum ásamt hanabjálkalofti. Þar var ekki í kot vísað. Ákveðin lotning og virðing fylgdi því líka að nefna bygginguna þessu einfalda nafni „Húsið“.
Húsið er stytting úr heitinu Kaupmannshúsið en Húsið var heimili kaupmanna og starfsmanna Eyrarbakkaverslunar frá byggingarári 1765 til 1927. Í manntali frá 1801 er talað um „Kaufmannshuus“, í Manntalinu 1816 nefnist byggingin „Kaupmannshús“ og í öllum húsvitjunarbókum frá 1840 fram á 20. öld.
Sá sem flutti í Húsið á Eyrarbakka 1919 var kaupstjóri Kaupfélagsins Heklu sem hafði keypt Eyrarbakkaverslun. Hann vildi ekki búa í kaupmannshúsi og var nafninu því breytt í Garð. Garður er heiti sem eldri Eyrbekkingar nota gjarnan í daglegu tali. Brottfluttir Eyrbekkingar héldu uppi heitinu Húsið og má sjá það heiti í ritum Vigfúsar Guðmundssonar og Jóns Pálssonar. Árið 1970 má sjá bæði heitin í auglýsingu þar sem „Húsið“ eða gamla kaupmannshúsið, Garður, er boðinn til sölu.[i]
Hjá Landskrá fasteigna nefnist byggingin Eyrargata 50.[ii]