Söfnin á Eyrarbakka í sumarblóma

júl 12, 2016

IMG_4393Hvað er sniðugra en að gera sér ferð á Eyrarbakka og líta á söfnin sem þar er að finna? Húsið, Kirkjubær og Sjóminjasafnið á Eyrarbakka taka vel á móti þér og þar er opið kl 11-18 alla daga í sumar.

Í Húsinu er sögð saga þessa merka húss sem byggt var 1765 og er í hópi elstu húsa á Islandi. Það var kaupmannssetur frá upphafi til 1927 þegar Eyrarbakki var verslunarstaður Sunnlendinga. Hægt er að skoða þessa merku byggingu hátt og lágt og er sagan við hvert fótspor. Í borðstofunni er sumarsýningin Dulúð í Selvogi.  Í viðbyggingunni Assistentahúsinu eru valdir þættir úr sögu héraðsins kynntir gestum og má þar m.a. sjá nýja sýningu um Vesturheimsferðir. Fyrir norðan Assistentahúsið er Eggjaskúrinn með áhugaverðri náttúrusýningu.

Um 20 metrum fyrir vestan Húsið er Kirkjubær sem er nýjasta viðbótin við safnaflóruna á Eyrarbakka. Kirkjubær er lítið bárujárnsklætt timburhús sem byggt var 1920 og var heimili almúgafólks og sumarhús síðustu áratugina. Þar er í dag mjög áhugaverð sýning sem nefnist Draumur aldamótabarnsins og segir frá alþýðufólki á tímabilinu 1920 til 1940. Sjón er sögu ríkari.IMG_4402

Samtýnis Húsinu er Sjóminjasafnið á Eyrarbakka. Þar segir frá sjómennsku, handverksfólki og félagslífi Eyrbekkinga á tímabilinu 1850 til 1950. Stærsti og merkasti gripurinn á sjóminjasafninu er áraskipið Farsæll sem smíðaður var á Eyrarbakka árið 1915 af Steini Guðmundssyni afkastamiklum skipasmið. Í eigu Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka er Beitningaskúr sem stendur við aðalgötuna og er hann opinn fyrir hópa eftir samkomulagi.